Eskja hættir vinnslu í Hafnarfirði

Rekstrarfélag Eskju ehf., sem er dótturfélag Eskju hf. hefur selt bolfiskvinnslu félagsins að Óseyrarbraut í Hafnarfirði og hættir rekstri. Kröftum Eskju verður beint enn frekar að vinnslu uppsjávarfisk í nýju frystihúsi á Eskifirði.


Í tilkynningu Eskju segir að ástæða sölunnar sé breytt rekstrarumhverfi í vinnslu á bolfiski. Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Eskju, segir rekstrarumhverfi bolfiskvinnsla hafa versnað síðustu misseri með styrkingu krónunnar og falli breska pundsins.

„Síðasta ár var erfitt í rekstri og útlit fyrir að svo verði áfram.“

Í yfirlýsingunni segir einnig að félagið muni í kjölfarið einbeita sér enn frekar að uppsjávarveiðum og vinnslu auk frekari uppbyggingar á Eskifirði þar sem nýtt uppsjávarfrystihús var tekið í notkun í lok síðasta árs.

„Við erum ekki búnir að klára verkefnið í uppsjávarvinnslunni sem hafist var handa við í fyrra. Við eigum eftir að klára uppsjávarfrystihúsið og viljum einbeita okkur að því verkefni. Þetta er rökrétt framhald af uppbyggingunni á Eskifirði og að einblína betur á kjarnastarfsemina en megin hluti af tekjum og afkomu félagsins hefur komið frá uppsjávarveiðum og vinnslu.“

Til stendur að byggja frystiklefa við nýja uppsjávarfrystihúsið en það verður gert í tengslum við hafnarframkvæmdir sem Fjarðabyggð hyggst skoða á nýja athafnasvæðinu á Eskifirði þar sem húsið stendur. Nýja athafnasvæðið var fyllt upp með efni úr Norðfjarðargöngum.

Eskja keypti vinnsluna í Hafnarfirði árið 2010 og eignaðist um leið línubát sem fékk nafnið Hafdís SU. Páll segir að báturinn verði áfram gerður út, afli hans seldur á fiskmarkaði og engar breytingar fyrirhugaðar á útgerð Hafdísar að svo stöddu.

Við vinnsluna í Hafnarfirði starfa 20 starfsmenn sem sagt verður upp. Fiskvinnslan Kambur kaupir eignirnar og flytur starfsemi sína í húsið á næstu mánuðum.

Skip Eskju eru nú við veiðar á kolmunna en loðnuvertíð er nýlega lokið. Þótt útlitið fyrir loðnu hefði ekki verið gott lukkaðist hún ágætlega og veiðar gengu vel. Eftir er þó að selja hluta afurðanna. Páll segir að félaginu hafi náð góðum tökum á nýja frystihúsinu á vertíðinni sem lofi góðu fyrir framtíðina.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.