Eskfirðingar langþreyttir á framkvæmdum við ár bæjarins

„Þetta minnir á sögu Davíðs Oddssonar af tilraunum hans til að hringja í konu sína frá Moskvu um árið,“ segir Ragnhildur Kristjánsdóttir, íbúi á Eskifirði, um rask sem hlaust af framkvæmdum við Ljósá á Eskifirði.



Í bréfi sem Ragnhildur sendi Austurfrétt segir; „Varla höfðu íbúar við Steinholtsveg jafnað sig eftir að hafa mánuðum saman þurft að fara um mjóa, bratta U-beygju til að komast heim til sín vegna framkvæmda við Hlíðarendaá þegar yfirvöld – bæjarstjórn og ofanflóðasjóður, ákváðu að hefjast handa við umbyltingu á Ljósá, við hinn enda götunnar.

Fyrstu dagar við þær framvæmdir voru viðburðaríkir, einn dag rafmagnslaust, annan vatnslaust og fyrir síðustu helgi duttu fjarskiptin út í sólarhring – ekkert sjónvarp, ekkert tölvusamband og þegar reynt var að hringja í nágranna úr heimasíma svaraði ólíklegasta fólk af fjarlægum svæðum. Loksins um fimm á föstudag var búið að kippa þessu í lag eftir mikið röfl og kvartanir,“ segir Ragnhildur.

Í pistli sem Ragnhildur sendi á Austurfrétt í október greinir hún frá framkvæmdum við Hlíðarendaá og því þegar hún sendi erindi til Umhverfisráðuneytis varðandi náttúruspjöll sem hún telur að af framkvæmdunum hljótist. Pistilinn má lesa hér.

Ragnhildur endaði bréf sitt með þessum orðum. „Þess má geta að hvorug þessi á hefur flætt yfir bakka sína síðustu 100 árin og kannski bara aldrei.“

Ljósmynd: Atli Börkur Egilson. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.