Eru aldraðir eign heilbrigðisstofnana? Öldruð hjón aðskilin á Vopnafirði

Image„Afi minn verður 94 ára í desember. Á eftir ömmusystur minni er hann næstelsti Vopnfirðingurinn. Bæði dvelja þau á legudeild Sundabúðar á Vopnafirði sem nú stendur til að loka. Amma mín býr í dvalaríbúð í Sundabúð og afi er þar lungann úr deginum, hann sefur niðri á legudeildinni en annars verja þau amma deginum saman uppi í litlu íbúðinni sem amma er nú skráð fyrir eftir að afi fluttist niður. Sigga ömmusystir mín, elsti Vopnfirðingurinn, kemur oft í heimsókn enda ekki um langan veg að fara. Þetta litla samfélag í Sundabúð er þeirra skjól, fasti punkturinn í tilverunni fyrir utan heimsóknir frá vinum og ættingjum.“

 

Svona hefst pistill Unu Bjarkar Kjerúlf á Vopnafjörður.is . Tilefnið er lokun dvalarheimilisins Sundabúðar á Vopnafirði vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Flytja þarf þá ellefu sem dveljast þar á aðra staði.

„Ég er fyrst og fremst hissa og hneyksluð. Hissa á að stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) skuli bera fram svo illa ígrundaðar og ólögmætar áætlanir og hneyksluð á framkomunni við starfsfólk og íbúa Sundabúðar, já og Vopnafjarðar eins og hann leggur sig því áætlanir sem þessar hafa áhrif á allt samfélagið.“

Hún segist hissa á að ákvarðanirnar komi að ofan og lítið sé hlustað á heimamenn.

„Þið komið ekki og kastið svona sprengju inn á elliheimili og labbið svo burt. Þið terroriserið ekki gamalt fólk og skiljið það eftir í uppnámi. Þið bjóðið öldruðum ekki upp á geðshræringu, áhyggjur og andvökunætur um hvort það verði tekið frá fjölskyldum sínum og sent hreppaflutningum í annað hérað. Þið sundrið ekki fjölskyldum og skiljið í sundur öldruð hjón, varnið þeim að eyða ævikvöldinu í návist hvors annars.“

Þetta segir Una Björk að sé hreint og klárt mannréttindabrot. „Ég velti fyrir mér hver réttur aldraðra sjúklinga er. Eru þeir eign heilbrigðisstofnana? Má fara með þá eins og hverja aðra mublu sem er flutt húsa á milli? Til að geta gert það þarf að svipta fólkið sjálfræði fyrst. Þetta fólk, þó aldrað sé, hefur enn sitt sjálfræði. Það er kannski hætt að kjósa og á ekki mörg ár eftir á kjörskrá en það hefur sín mannréttindi og sitt stolt. Það hefur líka tilfinningar, þær verða ekki skornar niður.

Við skulum bara kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Það er ekki verið að flytja sjúkradeildir. Sjúkradeildir eru ekki sjúkradeildir nema fyrir það að á þeim dvelur fólk. Að flytja sjúkradeild er ekkert annað en að flytja fólk. Við erum ekki að tala um húsnæði eða deildir heldur fólk; afa okkar og ömmur, mæður og feður, sem eiga betra skilið en að vera flutt nauðungaflutningum eins og fangar.“

Una Björk bindur vonir við að þeir sem ákveðið hafa niðurskurðinn sjái að sér. „Ég vona að þeir sem halda niðurskurðarhnífi heilbrigðiskerfisins á lofti sjái hve móðgandi og taktlausar tillögur sem þessar eru. Með svona aðgerðum eru þeir í besta falli að míga í skóinn sinn, í versta falli að rista samfélagið á hol.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.