Engin ákvörðun tekin um uppbót til sauðfjárbænda

Framkvæmdastjóri Norðlenska segir að enn liggi ekki fyrir ákvörðun um hvort sauðfjárbændum verði greidd uppbót eftir sláturtíð. Vel hefur gengið að flytja út kjöt en verðið af innanlandsmarkaði skiptir mestu máli.

Félag Sauðfjárbænda á Norðausturlandi skoruðu nýverið á stjórnendur Norðlenska að endurskoða ákvörðun sína um lækkað afurðaferð í haust. Á fundi í Skriðdal fyrir sláturtíðina sagði Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, að málin yrðu endurskoðuð ef vertíðin gengi vel.

Fyrir haustið voru miklar áhyggjur af birgðum. Þær reyndust ekki jafn miklar og óttast var auk þess sem lömbin voru léttari nú heldur en í fyrra.

Sauðfjárbændur hafa gagnrýnt að verðið hafi verið lækkað á grundvelli birgðastöðu sem síðan hafi ekki reynst hald í. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar ítrekar Ágúst það sem áður hefur komið fram að birgðirnar séu ekki vandamálið en fyrir kjötið verði að fást það hátt verð að það dugi fyrir kostnaði.

„Sala gengur ágætlega. Birgðir eru ekki vandamálið í sjálfu sér, það er hægt að selja kjöt út og lækka birgðir en það fæst bara svo lítið fyrir það að það hrekkur varla fyrir kostnaði. Það er vandamálið,“ segir hann.

Ágúst segir að þessar vikurnar sé verið að flytja út mikið magn af kjöti og aukaafurðum. Endanleg niðurstaða þessa útflutnings hafi talsvert að segja um afkomu af sauðfjárafurðum af sláturtíðinni. „Sú afkoma liggur ekki endanlega fyrir en skýrist þegar þessari sölu er lokið.“

Hann segir meira máli skipta hvernig mál þróist á innanlandsmarkaði en það haldist í hendur við útflutninginn.

Af þessum sökum liggi engin ákvörðun fyrir um annað en þá verðskrá sem gefin var út í haust. „Ég geri ekki ráð fyrir að ákvörðun um annað verði tekin nema að vel athuguðu máli og þá þegar betur liggur fyrir hvaða verðmæti verður hægt að gera úr þeim afurðum sem féllu til í sláturtíðinni.“

Ágúst Torfi segir að sláturtíðin hafi annars gengið nokkuð vel í haust. Aldrei hafi verið slátrað fleira fé á Húsavík, rúmlega 95 þúsund fjár.

Norðlenska er einnig með sláturhús á Höfn og gekk vinnan þar vel þótt vatnavextirnir í lok september hafi sett samgöngur og smalanir úr skorðum þannig nýting hússins hafi ekki orðið jafn mikil og æskilegt hefi verið.

„Við höfum verið lánsöm með starfsfólk í sláturtíð og á það mikinn þátt í því, ásamt góðu samstarfi við bændur, að vel gekk.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar