Enginn áhugi verktaka að stækka leikskólann Dalborg á Eskifirði

„Það er engin uppgjöf í okkur og við miðum ennþá við að fara í verkefnið með vorinu,“ segir Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar. Engin tilboð bárust í útboði vegna stækkunar leikskólans Dalborgar á Eskifirði.

Hönnunin tók lengri tíma en ráð var gert fyrir og nú er ljóst að tafir verða á byggingu viðbyggingar við leikskólann Dalborg enda engin svörun við nýlegu útboði sveitarfélagsins vegna þess.

„Málið snýst ekki um að stækka kennslustofur eða almenn rými heldur meira um starfsmannaaðstöðuna,“ segir Marinó. „Sú aðstaða er bæði þröng og uppfyllir ekki kröfur nútímans. Þörfin á stækkun er því orðin nokkuð brýn svo vel fari um alla. Hugmyndin er að í nýrri viðbyggingu verði góð starfsmannaaðstaða og með stækkun verður leikskólinn fimm deilda og vel rúmt um bæði starfsfólk og börnin.

Marinó telur meginástæðu þess að engir sóttu um verkið þá að uppgangur sé mikill í sveitarfélaginu og þau fyrirtæki sem hefðu í venjulegu árferði sýnt þessu áhuga séu önnum kafin í öðru. Hann vill þó ekki meina að verkefnið fari í bið að sinni. „Ekki bið beint heldur berum við saman bækur okkar nú og reynum að finna aðrar lausnir. Annað útboð er þó auðvitað ekki útilokað og okkar áætlanir miða enn við að hafist verði handa á vormánuðum.“

Mynd: Leikskólinn Dalborg. Aðsend mynd

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.