Engar lokanir enn boðaðar eystra

Engar lokanir á vegum eru enn fyrirhugaðar á Austurlandi vegna djúprar lægðar sem gengur yfir landið næstu daga. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir kvöldið og líkur eru á að færð geti spillst.

Vegagerðin gaf í hádeginu út lista yfir vegi sem líklegt er að lokað verði vegna veðurhamsins. Þótt engir þeirra séu á Austurlandi eru þar þó leiðir sem skipta Austfirðinga miklu máli.

Nærtækast er að nefna að gert er ráð fyrir að vegirnir um Víkurskarð, Ljósavatnsskarð og Mývatnsheiði verði lokaðir frá morgni þriðjudags til fimmtudagsmorguns.

Lægðin er byrjuð að ganga inn á landið. Reiknað er með að miðja hennar verði yfir Austfjörðum og áhrifin því minni eystra fyrst í stað.

Veðurstofa Íslands hefur þó gefið út gula viðvörun fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði frá því klukkan 18 í kvöld og þar til fjögur í fyrramálið. Spáð er suðaustan og síðar austan 10-18 m/s með úrkomu.

Hún fellur að líkindum sem slydda á láglendi en sem snjór á fjöllum. Færð getur auðveldlega spillst, blint orðið á fjallvegum og lélegt ferðaveður.

Þá hefur verið gefin gul viðvörun fyrir suðausturland sem tekur gildi annað kvöld og til fimmtudags, en þar er spáð miklu norðan roki.

Á miðvikudag og fimmtudag er svo spáð norðan 13-28 m/s á Austurlandi með stórhríð og skafrenningi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.