Elvar Jónsson: Hrepparígur er náskyldur fasisma

elvar_jonsson2.jpg
Elvari Jónssyni, oddvita Fjarðalistans, líkar illa að vera sakaður um að ala á hrepparíg í deilunum sem staðið hafa um Heilbrigðisstofnun Austurlands. Hann segir hrepparíg náskyldan öfgastefnum eins og fasisma.

„Það er alvarlegt að ásaka einhvern um hrepparíg. Hrepparígur er náskyldur þjóðernishyggju sem aftur er náskyld fasisma,“ sagði Elvar við umræður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í síðustu viku. „Með hrepparíg ala menn á andúð í garð nágranna sinna.“

Einar Rafn Haraldsson, forstjóri HSA, lét nýverið hafa eftir sér í viðtali að þeir sem ælu á hrepparíg væru skaðvaldar því rígurinn væri ein mesta meinsemd Austurlands. Orðum Einars Rafns virtist meðal annars beint að bæjarfulltrúum í Fjarðabyggð sem hafa sakað stofnunina um trúnaðarbrest með að skýra ekki frá að í velferðarráðuneytinu væri unnið að gerð skýrslu um framtíð austfirskrar heilbrigðisþjónustu.

Einar Rafn var gestur á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í síðustu viku. „Forstjóri HSA á eftir að endurvinna mitt traust. Ég spurði hann hvort hann teldi mig byggja skoðanir mínar á hrepparíg og hann svaraði því játandi. Hann virðist ekki treysta því að málflutningur minn byggi á mjög merkilegum rökum,“ segir Elvar.

„Ég einn veit á hverju ég byggi mínar skoðanir. Ég kann því illa að vera sakaður að byggja málflutning minn á annarlegum sjónarmiðum. Ég hef sjálfur mikla andúð á hrepparíg. Það er óþolandi að forustumenn opinberra stofnana byggi málflutning sinn órökstutt á svona fullyrðingum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.