Elvar Jónsson: Það er búið að kasta stríðshanskanum

elvar_jonsson2.jpg
Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, segist vera tilbúinn í átakastjórnmál síðasta árið af yfirstandandi kjörtímabili ef það sé vilji meirihlutans. Bæjarfulltrúar hafa deilt harkalega á samfélagsmiðlum undanfarna daga um nýja gjaldskrá almenningssamganga.

„Ég er afar ósáttur við að vera kallaður lýðskrumari eða popúlisti því ég tel mig hafa fullt til míns máls í þessu máli,“ sagði Elvar á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

Bæjarfulltrúar höfðu fyrir fundinn rætt nýja gjaldskrá almenningssamgangna í sveitarfélaginu á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Fulltrúar minnihlutans í Fjarðalistanum hafa gagnrýnt að sveitarfélagið sé ekki eitt gjaldsvæði en fulltrúar meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks segja að ekki séu til fjármunir í slíkar niðurgreiðslur.

Í þessum umræðum sakaði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, fulltrúa minnihlutans um „pólitískar keilur og poppúlisma“

„Til þessa hefur verið góð sátt í bæjarstjórninni en nú er búið að kasta stríðshanskanum. Ég veit ekki hvort við ætlum að eyða síðasta árinu okkar í bæjarstjórn í átakastjórnmál í boði formanns bæjarráðs en við í Fjarðalistanum erum tilbúin í það.“

Elvar sagði það högg fyrir vinnu við sameiningu Fjarðabyggðar í eitt sveitarfélag að íbúum yrði mismunað eftir búsetu í gjaldskránni.

„Það er mikill sorgardagur í sameiningu Fjarðabyggðar ef þessi tillaga nær fram að ganga. Íbúarnir verða að upplifa jöfnuð á sem flestum sviðum. Þessa tillögu verður að skoða upp á nýtt áður en meiri skaði er skeður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.