Eldur í ruslatunnum í Neskaupstað

Snarræði slökkviliðsmanna varð til þess að eldur sem kom upp í tveimur ruslatunnum sem stóðu við verslunarhúsnæði í miðbæ Neskaupstaðar náði ekki að læsa sig í húsið. Þar virðast aðeins hafa orðið minniháttar skemmdir.

Slökkvilið var kallað út um tuttugu mínútur fyrir ellefu í gærkvöldi að Hafnarbraut 15, sem hýsir apótek Lyfju og Vínbúðina. Eldur logaði þar upp úr tveimur ruslatunnum sem stóðu upp við húsið.

„Þetta var töluverður eldur og leit illa út í fjarska,“ segir Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri.

Hann segir tvennt hafa skipt lykilatriði til að ekki fór verr. Í fyrsta lagi eldtefjandi klæðning á þeirri hlið hússins sem ruslatunnurnar stóðu við, hins vegar snör handtök slökkviliðs sem réði niðurlögum eldsins á tæpum 20 mínútum.

Hann segir nokkra hættu hafa verið á ferð. Í þaki hússins er timbur með pappa ofan á og illa hefði farið ef eldurinn hefði komist þangað.

Húsnæðið er almennt lítið skemmt. Einhver reykur barst inn í það og þurfti slökkviliðið að reykræsta það. Einhver brunalykt situr þó væntanlega eftir og óvíst er hver áhrifin eru á þær vörur sem voru í verslununum.

Aðspurður um hvort um íkveikju hafi verið að ræða kveðst Guðmundur Helgi ekki geta staðfest það þótt líklegt sé. Varla hafi verið nokkuð í tunnunum sem hafi getað valdið eldinum. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir nánari rannsókn.

Frá slökkvistarfinu í kvöld. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar