Ekki verið svona lengi veðurtepptur eftir blót á Seyðisfirði

ottarr_magni_johannsson_oj.jpg
Fjöldi þorrablótsgesta er enn veðurtepptur á Seyðisfirði en þar blótuðu menn þorra á laugardagskvöld. Hljómsveitin er enn í bænum og sló upp aukaballi í kvöld. Seyðfirðingar eru almennt rólegir en margir þeirra hafa ekki getað sótt vinnu í vikunni. Formaður björgunarsveitarinnar segist mestar áhyggjur hafa ef koma þurfi sjúklingi yfir Fjarðarheiðina.

„Ég man ekki eftir að hafa verið fastur hér í svo marga daga eftir þorrablót,“ segir Óttarr Magni Jóhannsson, fyrrverandi formaður Seyðfirðingafélagsins í Reykjavík. Hann hefur mætt á flest blót á Seyðisfirði undanfarin tuttugu ár.

Tugir brottfluttra Seyðfirðinga og aðrir gestir hafa ekki komist til síns heima eftir blótið. Slegið hefur verið á að um 100 manns séu tepptir í bænum, þar af um helmingurinn eftir blótið. Fjarðarheiði hefur verið ófær síðan á laugardagskvöld.

Mikill snjór á heiðinni gæti gert opnun erfiða

„Það hefur verið lokað hingað síðan á laugardaginn og áður en lokaðist var ekkert sérstaklega gott að fara yfir,“ sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri, í samtali við Austurfrétt í dag. 

Þótt óveðrið sem herjað hefur á Austfirðinga síðan um helgi, með hvassviðri og ofankomu, eigi að ganga niður í nótt og í fyrramálið er enn óvíst hvernig gengur að opna Fjarðarheiðina. „Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið er orðinn nokkuð mikill snjór á heiðinni þannig að það ræðst mikið af veðri hvernig samgöngur verða á næstunni,“ sagði Vilhjálmur.

Ekki spurning um hvort heldur hvenær ófærð yfir Fjarðarheiði hefur alvarlegar afleiðingar

isolfur_bjorgunarsveit_jan13_oj.jpg
„Helsta áhyggjuefni bæjarbúa er hvað gerist ef eitthvað alvarlegt kemur upp á og lífsnauðsynlega þarf að komast með sjúklinga yfir heiðina,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs. 

Í húsnæði sveitarinnar voru nokkrir félagar í dag að yfirfara tækjabúnað til að allt væri til reiðu ef kallið kæmi en sveitin sér um sjúkraflutninga frá Seyðisfirði. „Það er mál manna að það sé því miður ekki spurning um hvort heldur hvenær ófærð á Fjarðarheiði hafi í för með sér verulega alvarlegar afleiðingar í þessum efnum.“
 
En ekki eru eingöngu brottfluttir Seyðfirðingar og gestir sem eru í vandræðum vegna aðstæðnanna.  Talsverður fjöldi Seyðfirðinga sækir vinnu annarsstaðar og starfsmenn Alcoa-Fjarðaáls sem áttu dagvakt á laugardag hafa ekki komist heim síðan. Þá voru nokkrir Seyðfirðingar sem ekki komust heim á blót þar sem flugsamgöngur röskuðust eftir hádegi á laugardag.

sputnik_sfk_jan13_oj.jpg
Hljómsveitin föst - heldur annað ball

Hljómsveitin Spútnik, sem lék fyrir dansi á þorrablótinu, komst þó á Seyðisfjörð fyrr á laugardeginum, fyrir utan trommuleikarann sem hugðist taka flug síðar þann dag.

Þegar útséð var með að trommuleikarinn kæmist með flugi, var kallaður til annar trommuleikari frá Akureyri, enn sá komst þó ekki nema í Egilsstaði þar sem Fjarðarheiðin var orðinn ófær þegar þangað var komið, og var því kallaður til heimamaður til að fylla í skarðið og stóð hann sig með prýði.
 
Hljómsveitarmeðlimirnir eru, eins og aðrir sem náðu á blótið, fastir á Seyðisfirði en þeir deyja þó ekki ráðalausir. Þeir ætla að rífa upp stemmningu á Kaffi Láru – El-Grillo bara í kvöld og opnaði húsið klukkan níu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.