Ekki stórt flóð úr Hrafnakömbunum

Snjómokstursbílar Vegagerðarinnar hafa verið á nær stöðugri ferð þegar veður hefur leyft undanfarna viku. Snjóflóð undir Grænafelli tafði að vegurinn yfir Fagradal væri opnaður í gær. Mikill snjór er á svæðinu.

„Það var mokstursbíll á okkar vegum sem kom að flóðinu. Hann sagði mér að flóðið hefði náð upp á miðja framrúðu og svona fjórar bíllengdir,“ segir Hinrik Þór Einarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Snjóflóðið féll úr Hrafnakömbum undir Grænafelli í innanverðum Reyðarfirði. Ekki er nýtt að flóð falli á þeim stað. Hinrik segir mikinn snjó á Reyðarfirði og heimafólk tala um að ekki hafi sést meiri snjór á svæðinu í 15 ár.

Hann segir mokstursbíla Vegagerðarinnar hafa verið á nær stöðugri ferð undanfarna viku og þokkalega gengið að halda flestum leiðum á svæðinu. Tvisvar hefur þurft að loka Fagradal. Ástæðan er frekar slæmt skyggni en ófærð. Dalnum var síðast lokað á jóladag eftir en þar höfðu bílar lent í vanda.

Hinrik segir Vegagerðina þurfa að feta þröngan stíg milli krafna um að halda vegum opnum og tryggja öryggi vegfaranda. Alltaf sé leiðinlegt að þurfa að loka leiðum en stundum verði ekki ráðið við aðstæður. Þegar einn bíll festist geti vandinn fljótt undið upp á sig. Þá kalli fastir bílar á aðstoð nokkurra sjálfboðaliða frá björgunarsveitunum. Almennt sýni vegfarendur lokunum skilning.

Mokstursbílar Vegagerðarinnar eru á ferðinni á svæðinu. Í dag hefur meðal annars verið rutt út með sunnanverðum Reyðarfirði að Vattarnesi. Ekki næst að opna frá Vattarnesinu að Fáskrúðsfirði í dag, þar er mikill snjór. Talsverður snjór mun einnig vera í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og í Breiðdal er þæfingur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.