Ekki haldið áfram með ofanflóðavarnir: „Synd að þessir peningar séu ekki nýttir“

Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir vonbrigðum yfir að ekki sé gert ráð fyrir að halda áfram gerð snjóflóðavarna við Norðfjörð í fjárlögum þessa árs, einkum í ljósi þess að sérstakur sjóður sé til staðar fyrir ofanflóðavarnir.


„Það eru mikil vonbrigði að ekki náðist inn á fjárlög að halda áfram í næsta verkefni, varnir undir Urðarbotnum.

Við töldum eftir að hafa verið í sambandi við þingmenn og fjárlaganefna við hefðum komið málstað okkar vel á framfæri. Það var því vonbrigði þegar ljóst var að ekki var heimild í þeim,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Í bókun frá fundi bæjarráðs á mánudag er bent á að í ofanflóðasjóði séu 15 milljarðar króna og bætist í því ekkert er gert því ákveðið hlutfall af brunatryggingu húsnæðis rennur í sjóðinn. Í bókunni segir að ljóst sé að í sjóðnum safnist upp fjármunir meðan brýn lögbundin verkefni sem varði öryggi og eignir fólks bíði.

„Það er synd að ekki sé verið að nýta þessa peninga. Við skiljum að það sé reynt að passa þenslu en okkur finnst það skjóta skökku við því hér er ekki verið að óska eftir skattpeningum sem hafa áhrif á forgangsröðun annarra verkefna,“ segir Páll Björgvin.

Hann bendir á að hagræði væri í að halda samfellu í framkvæmdum verktaka. Oft sé dýrt að fá þá á staðinn en á Norðfirði séu verktakar að vinna í jarðgöngum, flugvelli og höfn. Hann segir baráttu bæjarstjórnarinnar ekki lokið.

„Við reynum að sannfæra ráðherra um að koma þessu á dagskrá þannig að hægt verði að halda áfram á þessu ári.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.