Ekkert smit eystra enn
Staða Covid-19 faraldursins á Austurlandi er óbreytt miðað við nýjustu tölur af vefnum Covid.is.Yfir 30 manns greindust með smit innanlands um helgina sem þýðir að alls eru 83 í einangrun og 354 í sóttkví á landsvísu.
Á Austurlandi er hins vegar enginn í einangrun en þrír í sóttkví. Staðan hefur því ekki breyst síðan fyrir helgi.
Auk Austurlands var smitlaust á Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra í morgun en smit í öðrum landshlutum.
Á upplýsingafundi í morgun sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að engin ákvörðun lægi enn fyrir um hertari sóttvarnir. Í dag verður ráðist í víðtækar skimanir vegna smitanna um helgina.
Hann sagði þau tilkomin því einstaklingar hefðu óvarlega í sóttkví eða mætt veikir til vinnu. Þórólfur áréttaði því að fólk færi í skimum ef það yrði vart við minnstu einkenni og héldi sig heima þar til niðurstaða lægi fyrir.
Helstu einkenni Covid-19 veirunnar eru hiti, hausverkur, nefrennsli, beinverkir, breyting á bragð- og lytkarskyni, niðurgangur, óvenjuleg þreyta, hálsbólga, hósti eða þurr háls.