„Ekkert sem benti til þess að skipið myndi sökkva“

Byrjað er að huga að því að ná Drangi ÁR-307 upp úr höfninni á Stöðvarfirði en skipið sökk þar í morgun. Fullkomlega óljóst er hvað gerðist enda skipið nýlega komið úr slipp.

„Það átti enginn von á þessu. Það var ekkert sem benti til þess að þetta væri möguleiki,“ segir Steinar Sigurgeirsson, skipstjóri Drangs.

Áhöfn Drangs gekk frá skipinu og fór í helgarfrí á þriðjudagskvöld. Stefnt var að því að fara aftur á veiðar seinni hluta þessar viku. „Við genum ekkert öðruvísi frá því en við erum vanir. Við settum fleiri spotta, eins og oft er gert þegar menn fara í frí.“

Drangur er gerður út af Aurora Seafood og var Steinar á leið austur fyrir hönd útgerðarinnar þegar Austurfrétt náði tali af honum. Aðgerðir í dag hafa miðað að því að hemja olíumengun frá skipinu.

Næstu skref eru í höndum tryggingarfélags útgerðarinnar. Búið er að hafa samband við fyrirtæki sem sérhæfir sig í björgun skipa og er kafari á vegum þess væntanlegur austur í kvöld. Í framhaldinu verður metið hvernig hægt verði að ná skipinu upp. „Ég reikna með að það verði reynt að ná því upp eins fljótt og hægt er,“ segir Steinar.

Allt er enn óljóst um hvað olli því að skipið sökk og ólíklegt að það skýrist fyrr en búið verður að koma því upp. „Það hefur eitthvað gerst. Maður veit ekki hvað en það getur verið margt,“ segir Steinar.

Drangur hét áður Valbjörn ÍS en komst í eigu Aurora fyrir um ári síðan. Skipið var tekið í slipp í Njarðvík í vor sem leið og hélt ekki aftur til veiða fyrr en í september. „Þar var farið yfir þessi skoðunarskyldu atriði. Síðan höfum við verið að laga til því því sjálfir, aðallega varðandi vinnsluna,“ segir Steinar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.