Eitt af fyrstu stóru verkunum að endurmeta fjárhagsstöðuna

Útlit er fyrir 320 milljónir vanti upp á áætlaðar tekjur Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar sem eftir helgi sameinast í nýtt sveitarfélag. Oddvitar nýmyndaðs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segja sveitarfélagið hafa burði til að standa þetta högg af sér en þó verði að fara yfir allar áætlanir.

Samkvæmt skýrslu, sem unnin var fyrir samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið í lok ágúst, mun samanlagt vanta 320 milljónir upp á áætlaðar tekjur sveitarfélaganna fjögurra á þessu ári, aðallega út af áhrifum Covid-19 faraldursins.

Í krónum talið eru áhrifin mest á Fljótsdalshéraði þar sem 230 milljónir vantar upp á tekjurnar, 50 á Seyðisfirði og 40 á Djúpavogi en þær eru hins vegar þremur milljónum meiri á Borgarfirði. Hlutfallslega eru áhrifin hins vegar mest á Djúpavogi þar sem samdrátturinn nemur rúmu 80 þúsund krónum á hvern íbúa, um 75 þúsund á Seyðisfirði og um 64 þúsund á Héraði.

„Það verður ekki hjá því komist að þessi fjögur sameinuðu sveitarfélög verði fyrir búsifjum út af Covid, eins og önnur. Auk þess að koma stjórnsýslunni í gang á nýju formi er eitt forgangsverkefna okkar á næstu vikum að endurskoða þær forsendur sem við höfum til gerðar nýrrar fjárhagsáætlunar og stilla henni upp á nýtt,“ sagði Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks.

Veltufé 400 milljónum minna

Bæði tekjusamdrátturinn og aukin útgjöld, svo sem í félagsþjónustu og átaksverkefnum til að mæta efnahagssamdrætti vegna veirunnar, hafa aftur áhrif á veltu fé frá rekstri og skuldahlutfall sveitarfélaganna sem verður hærra en áætlað var. Áætlað var að skuldirnar yrðu rúmir 5,6 milljarðar samanlagt en samkvæmt skýrslunni verða rétt rúmir sex milljarðar. Skuldaviðmiðið verður þó langt undir því hlutfalli sem kveðið er á um í lög.

Þá lækkar veltuféð úr áætluðum 642 milljónum niður í 235 milljónir. Uppistaðan af því kemur frá Fljótsdalshéraði, 220 milljónir og síðan 22 milljónir frá Borgarfirði. Áætlað veltufé frá Seyðisfirði nemur 8 milljónum og á Djúpavogi er útlit fyrir að það verði neikvætt um 15 milljónir.

Í samkomulagi meirihlutans, sem kynnt var í gær, er komið inn á framkvæmdir svo sem lagningu ljósleiðara, skipulega verði unnið að úttektum á ástandi og viðhaldi mannvirkja, byggðaþróun í sveitum og að börn frá 12 mánaða aldri, en til að tryggja það á að velja stað fyrir og hanna nýjan leikskóla á Egilsstöðum.

Geta staðið við áætlanir um framkvæmdir

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, segir að sveitarfélagið eigi að geta staðið höggið af sér og ekki eigi að þurfa fresta framkvæmdum vegna þess. Jafnvel sé það skylda sveitarfélagsins að axla ábyrgð þegar að kreppi á einkamarkaði.

„Þótt hér sé tekjusamdráttur stendur þetta sveitarfélag betur að vígi en mörg önnur, höggin hér eru ekki eins þung og víða annars staðar. Við teljum að verkefnið sé vel viðráðanlegt. Við höfum unnið að áætlanagerð jafnt og þétt og framundir þetta höfum við lítið annað séð en við getum staðið við áætlanir um framkvæmdir.

Við aðstæður sem þessar þarf hið opinbera að leggja sitt af mörkum til að draga úr neikvæðum áhrifum. Ríki og sveitarfélög horfa þannig í að taka lán fyrir framkvæmdum. Fjármálastefna þeirra sveitarfélaga sem nú sameinast gera það að verkum að sveitarfélagið er í stakk búið að takast á við það sem framundan.

Sameiningin kemur á mjög góðum tíma. Henni fylgja ákveðin framlög af hálfu ríkisins og í þeim finnum við ákveðna viðspyrnu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.