„Eins og að vera inni í annarra manna húð“

Tvö ár eru um þessar mundir síðan transstrákurinn Marteinn Lundi Kjartansson hóf hormónameðferð sína. Áður hafi hann stöðugt upplifað sig í röngum líkama.

Marteinn Lundi er uppalinn á Reyðarfirði, fæddur árið 2002, skráður sem stúlka í fæðingarvottorði. Hann segist snemma á kynþroskaaldrinum hafa gert sér grein fyrir að hann þroskaðist í aðrar áttir heldur en börnin í kringum hann.

„Mér fannst óþægilegt að fara í gegnum kynþroskann. Stelpurnar í bekknum voru spenntar fyrir að breytast en ég var það ekki. Ég kom út sem tvíkynhneigður í sjötta bekk. Ég þekkti til fólks sem var hinsegin og sætti mig við þessa niðurstöður.

Síðar lærði ég að kynhneigð og kynvitund er ekki það sama. Ég vissi ekki að trans væri til. Ég var að reyna að skilja sjálfan mig, hvað gengi á í mínum heila.

Það var enginn fyrir austan eins og ég né fræðsla til staðar heldur leitaði ég á netinu. Ég lærði orðið trans í áttunda bekk og fór að lesa mér til um það. Allar lýsingar pössuðu svo fullkomlega við það sem ég var að ganga í gegnum. Þá tók við önnur krísa,“ segir Marteinn Lundi í viðtali í Austurglugga vikunnar.

„Það er sama hvað þú sérð í speglinum, það er allt rangt, engin tenging. Ég segi að þetta sé eins og að vera inni í annarra manna húð. Hún er stanslaust þarna en þú passar engan veginn í hana, þig klæjar og færð sár,“ bætir hann við.

Marteinn greip til aðgerða sem gerðu hann karlmannlegri í útliti. Hann segist hafa fundið fyrir vellíðan þegar ókunnugt fólk fór að ávarpa hann sem herra. „Mér fannst það passa mér mikið betur. Tilfinningin er eins og þegar allir kalla þig röngu nafni, svo segir loksins einhver það rétt.“

Fannst viðtölin aðallega til að tefja

Skömmu eftir að Marteinn Lundi byrjaði í framhaldsskóla fór hann í fyrsta viðtalið hjá transteymi Barna- og unglingageðdeildar Landsspítalans (BUGL). Viðtölin miðuðu meðal annars að því að kanna hvort hann væri tilbúinn í kynmeðferðarferli, sem hann kveðst hafa verið löngu tilbúinn til og því haft litla þolinmæði fyrir spurningum sem virtist til lítils annars en reyna að telja honum hughvarf.

Aðstæður Marteins breyttust er hann varð 18 ára og þar með fullráða. Um tíma óttaðist hann að hafa lent milli skips og bryggju þar sem ferlinu hjá BUGL var ekki lokið en eftir að hann komst inn í kerfi fullorðinna fóru hjólin að snúast. Um tveimur mánuðum eftir fyrsta viðtalið hjá lækni fékk hann fyrstu hormónasprautuna, þann 28. júlí árið 2020.

Marteinn kveðst snemma hafa upplifað árangur af meðferðinni. „Ég fann þunglyndið lagast, ég losna aldrei við það en erfiðu dagarnir eru færri.

Ég gladdist yfir að fá hár á tærnar og bringuna, þegar röddin dýpkaði og skeggrótin óx. Fyrst fékk ég svona dúska á kinnarnar. Ég ætlaði ekki að raka það. Vinkonur mínar skipuðu mér að gera það, þetta væri ógeðslegt, ég yrði að bíða eftir að fá meira til að geta safnað. Í millitíðinni gerði ég allt sem ég gat til að örva skeggvöxtinn. Ég ætlaði að fá almennilegt skegg.

Um daginn hitti ég fyrrverandi skólabræður mína. Þeir horfðu á mig og sögðu að ég væri að svindla. Ég væri með miklu meira skegg þótt þeir hefðu verið með hormónið í sínum líkama í 20 ár en ég bara í tvö!“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.