Einar Rafn: Það stóð ekki til að loka skurðstofu og fæðingardeild á Norðfirði og flytja í Egilsstaði

einar_rafn_siv_fridleifs.jpg
Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) segir að ekki standi til loka skurðstofu og fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og flytja í Egilsstaði. Hann ítrekar að skýrsla sem unnin var nýlega um skipulag innan stofnunarinnar sé aðeins umræðugrundvöllur. 

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali vikublaðsins Austurgluggans við Einar Rafn. Umrædd skýrsla hefur valdið miklu fjaðrafoki en bæjarráð Fjarðabyggðar ásakar HSA um trúnaðarbrest og hafa leynt tilurð hennar. 

„Höfundar skýrslunnar setja fram sitt álit og f innist fólki það hliðholt einum fremur en öðrum verður svo að vera. Ætli það sé ekki þannig að Héraðsbúum líki ýmislegt vel og ýmislegt í skýrslunni sem Fjarðamönnum líkar illa og öfugt. Þessi hrepparígur er versta mein austfirskra byggða og þeir sem ala á honum eru skaðvaldar,“ segir Einar.

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að öðrum heilsugæslustöðvum í Fjarðabyggð en á Reyðarfirði verði lokað, að Egilsstaðir verði miðstöð bráðalækninga og fæðingarþjónusta flutt þangað frá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þá er einnig rætt um lokun hjúkrunarheimilisins Sundabúðar á Vopnafirði.

Einar bendir á að unnið sé að stækka heilsugæslustöðina á Reyðarfirði og gera hana að 3-4 manna stöð. Auðveldara sé að manna slíkar stöðvar því ungir læknar vilji geta átt auðveld samskipti við starfsfélaga sína. Frá slíkri miðstöð megi sinna móttöku lækna á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Ekki standi til að loka á Breiðdalsvík eða Stöðvarfirði. Unnið sé að lausnum til að þjóna öldruðum Vopnfirðingum en fólk verði „rifið upp úr rúmunum og sent nauðugt í aðra vist.“

„Í skýrslunni segir að efla beri bráðalæknisþjónustu á Egilsstöðum. Sá misskilningur er uppi að þarna sé átt við að leggja niður neyðarþjónustu og skurðdeild FSN og flytja í Egilsstaði. Svo er alls ekki. Bráðalækningar eru tiltölulega ný sérgrein lækninga og samkv. Læknablaðinu snúa bráðalækningar einkum að öndunarfærum, blóðrás, losti og eitrunum. Mér finnst að efla eigi þekkingu á þessu sviði í hverri heilbrigðisstofnun og þjálfa heilsugæslulækna, unglækna og hjúkrunarfræðinga í meðferð bráðveiks fólks með áherslu á skjóta greiningu og fyrstu meðferð algengra vandamála eins og eitrana, áverka, alvarlegra sýkinga, andnauðar, losts og krampa. Egilsstaðir henta ágætlega sem miðstöð slíkrar þekkingar,“ segir Einar og svarar bæjarráði Fjarðabyggðar fullum hálsi.

„Þegar HSA varð til 1999 voru stofnanirnar, sem sameinaðar voru, afar misjafnlega staddar. Húsnæði var víða mjög ábótavant, tæki sumstaðar afleit og sveitarstjórnir í eilífum slag um hvernig úthluta skyldi opinberu fé til heilbrigðisstarfsemi í fjórðungnum. Rekstrarlega stóð Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað langverst með miljónatuga skuld við Sparisjóð Norðfjarðar. Á þeim tíma sem HSA hefur starfað hefur starfsemi sjúkrahússins aukist og blómgast, læknisstöðum fjölgað, orðspor þess er gott og húsnæðið hefur verið stórlega endurbætt. Eldra húsið hefur verið gert algerlega upp, byggt þak yfir nýrra húsið og stórfelldar endurbætur gerðar innanhúss, röntgentæki hafa verið endurnýjuð, rannsóknarstofa mjög vel búin o.s.frv. 

Þess utan hafa velunnarar hússins lagt fram stórfé í formi tækjagjafa en ég spyr: Er líklegt að sá eða þeir sem „vinna leynt og ljóst gegn heilbrigðisþjónustu í Fjarðabyggð“ hafi staðið í því að afla samþykkis hjá yfirvöldum og Alþingi og tala fyrir fjárveitingum í það sem að framan greinir? Hvað með byggingu heilsugæslustöðvar á Reyðarfirði og nýjan læknabústað þar? Er þar á ferðinni óvild stjórnenda HSA? Hvað með stofnun Slökkviliðs Fjarðabyggðar og aðkomu HSA að henni með kaupum á sjúkraflutningaþjónustu? Er líka unnið af illum hvötum þar? Ég ætla ekki að tína fleira til, en þarf ekki bæjarráðið að athuga sinn gang?“

Einar Rafn segir að úttekt ráðgjafanna sé aðeins umræðugrundvöllur. Skýrslan var unnin að beiðni yfirstjórnar HSA sem í haust sá fram á kröfu um 130 milljóna króna niðurskurð á þessu ári.  „Hugmyndirnar eru ekki fyrirmæli ráðuneytisins til stofnunarinnar og í sumum tilvikum ekki í samræmi við stefnu þess eða HSA. Samt er nauðsynlegt að fjalla um þær og taka ákvarðanir um að nota þær eða ekki.“

Austurglugginn birti útdrátt úr skýrslunni fyrir tveimur vikum. Hún var tilbúin um miðjan desember. Einar Rafn segir ekki hafa séð hana fyrr en um viku fyrir útkomu blaðsins. Þá var ekki búið að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum eða lykilmönnum innan HSA. Skýrslan var ekki ætluð til opinberrar birtingar. Einar Rafn segir það hafa valdið uppnámi að hún birtist þar áður en hún var kynnt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.