Ein líkamsárás kærð til lögreglu eftir Eistnaflug

Talsverður erill var hjá lögreglu seinni part aðfaranætur sunnudags í Neskaupstað þar sem tónlistarhátíðin Eistnaflug fór fram. Lögregla telur samt hátíðina hafa verið rólega þrátt fyrir mikla ölvun.


Ein líkamsárás var kærð á hátíðinni og í eitt skipti fór lögregla með mann á sjúkrahús þar sem hann var mikið bólginn á fæti og með skurð á höfði. Hann sagðist hafa lent í átökum á tjaldsvæðinu.

Mest var að gera aðfaranótt sunnudags. Þá var einn handtekinn vegna vopnalagabrots en sá sami hafið fíkniefni í fórum sínum. Sömu nótt var meðal annars tilkynnt um stúlku sem gengið hafði í sjóinn.

Vísa þurfti æstum og ölvuðum mönnum út af tónleikasvæðinu en þeir höfðu ekki keypt miða.

Einn ökumaður var handtekinn ölvaður við Egilsstaði en sá var að koma af hátíðinni.

Í tilkynningu lögreglu segir að umferðin hafi gengið vel í gær og gestir hátíðarinnar virst passa sig á að fara ekki af stað of snemma á bílum sínum. Margir ökumenn vildu blása í áfengismæli hjá lögreglu áður en haldið var af stað og sumir frestuðu að því loknu för sinni fram eftir degi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.