Eignir í hverfinu óseljanlegar og óleigjanlegar: Skipta þarf um þak á öllum húsunum

votihvammur_jan13_web.jpg
Útlit er fyrir að skipta þurfi um þök í öllum íbúðum í Votahvammi á Egilsstöðum og nokkrum húsum á Reyðarfirði sem ÍAV byggði fyrir nokkrum árum. Ekki er búið að gera út um hver beri skaðabótaábyrgð af aðgerðunum. Eigendur húsanna gætu staðið frammi fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni. Borgarafundur verður haldið um málið á Egilsstöðum í kvöld.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur fyrir hönd íbúa á svæðinu verið í viðræðum við Íbúðalánasjóð og innanríkisráðuneytið um að aðstoða íbúa á svæðinu. Útlit er fyrir að skipta þurfi um þak á öllum húsunum. Það verði gert í áföngum og standa vonir til að hægt verði að koma þeim sem þurfa að fara úr húsum sínum á meðan í skjól í íbúðum Íbúðalánasjóðs á Egilsstöðum.

Þá hefur verið rætt að ríkissjóður borgi viðgerðirnar á meðan gert verði út um hver beri skaðabótaskyldu vegna tjónsins. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að innanríkisráðherra hafi tekið jákvætt í erindi sveitarfélagsins og sömuleiðis fulltrúar Íbúðalánasjóðs þótt ekki hafi enn verið gengið frá endanlegri aðkomu.

Erlendar heimildir vara við notkun birkikrossviðar

Það var fyrrihluta árs 2004 sem ÍAV byrjaði að byggja íbúðarhúsnæði á Egilsstöðum og Reyðarfirði en alls fékk fyrirtækið úthlutað lóðum undir 274 íbúðir. Áætlað er að mygluvandamálið hafi komið upp eða geti komið upp í um 50 íbúðum á Austurlandi, þar af eru um fjörutíu í Votahvammi. Einingahúsin sem um ræður eru hönnuð af Arkís og Hönnun, nú Mannviti, í samstarfi við BYKO.

Sérfræðingar ÍAV segja rangt efnisval líklegustu skýringuna á því að mygla hafi fundist í þökum húsanna. Þar hafi verið notast við birkikrossvið. „Allar erlendar heimildir sem fjalla um þessi mál vara sterklega við notkun birkikrossviðar í slík þök,“ segir í bréfi fyrirtækisins til íbúðareiganda frá því í byrjun desember. Þar er tekið fram að efnið hafi verið valið í samstarfi við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sem fari með gæðaeftirlit.

Fleiri ástæður eru nefndar. Undirkæling hafi myndast í þökunum, útloftun þakanna sé ekki alls staðar í lagi og þá sé frágangur á rakalagi sums staðar gallaður. Fyrirtækið hefur leitað til erlendra sérfræðinga og heitir íbúum nánari upplýsingum þegar rannsóknum er lokið.

Náttúruhamfarir

Húsin á Reyðarfirði eru færri en þar leikur grunur um svipaðar skemmdir. Myglusveppur hefur verið staðfestur í einu húsi á Melbrún en húsin sem ÍAV byggði þar eins og á Egilsstöðum eru sex talsins og í Melbrekku eru þrjár íbúðir. Forsvarsmenn Fjarðarbyggðar funduðu með íbúum í fyrrakvöld.

Íbúar hafa líkt málinu við náttúruhamfarir. „Eignir í þessu hverfi eru eins og staðan er núna óseljanlegar, óleigjanlegar og ljóst að eigendur standa frammi fyrir miklu fjárhagslegu tjóni,“ segir í bréfi íbúa í Votahvammi til yfirvalda á Fljótsdalshéraði þar sem leitað er eftir liðsinni þeirra í málinu.

Sem fyrr segir hefur sveitarfélagið leitt viðræður við hið opinbera um aðstoð og skömmu fyrir jól var haldinn borgarafundur um málið.

Fræðslufundur í kvöld

Þá hefur verið boðað til fræðslufundar um mygluskemmdir í húsum og heilsufar í Egilsstaðaskóla í kvöld klukkan 20:00. Sveitarfélögin standa sameiginlega að fundinum ásamt opinberum heilbrigðisstofnunum.

Erindi halda Stefán Þórarinsson, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis, Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands og Michael V. Clausen, sérfræðingur í ofnæmissjúkdómum barna og unglinga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.