„Ég segi að þetta séu ekki börnin hér í bænum“

„Maður er rosa hissa á að svona gerist hérna hjá okkur á litla Reyðarfirði, þetta er bara eitthvað sem maður sér í fréttunum,“ segir Sælín Sigurjónsdóttir á Reyðarfirði um skemmdarverk sem framin voru á eigum hennar aðfaranótt laugardags.


Sælín segir að allt hafi verið eðlilegt þegar hún fór að sofa á föstudagskvöldið. Hún hafi svo rumskað við umgang við húsið milli fjögur og fimm aðranótt laugardags, en hún býr rétt neðan við aðalgötuna miðsvæðis á Reyðarfirði.

„Ég fór ekkert til að athuga það, en þegar ég vaknaði á laugardagsmorguninn blasti við mér ófögur sjón – búið var að spruða hér um allt með svörtu lakki, á bílinn minn, þakið á kofanum sem er utan um ruslatunnurnar og kantsteininn framan við húsið var ritað „Alcoa gang".

Sælín tók myndir af verknaðnum og hafði samband við lögreglu strax um morguninn. „Lögreglan kom ekki á svæðið fyrr en eftir klukkan þrjú, en þeir eru víst ekki á vakt fyrr en þá. Hún gerir svo sem ekki neitt og mun ekki rannsaka þetta neitt frekar. Ég var bara spurð um hitt og þetta og svo er það bara undir mér komið að hafa samband ef ég fréttti eitthvað, en ég hef enn sem komið er engar vísbendingar í höndunum,“ segir Sælín.

„Menn eiga ekki að komast upp með svona“
Sælín var í fyrstu viss um að tjónið á bílnum væri mikið og hann þyrfti að sprauta. „Það voru allir vissir um að við þyrftum að láta sprauta bílinn og þó svo við séum tryggð í kaskó þá er sjálfsábyrgðin mikil upphæð sem maður á ekki endilega. Við náðum sem betur fer að þrífa þetta af með ákveðnum efnum þannig að ekki sér á bílnum. Það lakk sem selt er í dag er akríl en ekki olía og því gerlegt að ná því af. En það er alveg sama, menn eiga ekki að komast upp með svona. Ég segi að þetta séu ekki börnin hér í bænum því þau eru ekki vön að hafa sér svona, ekki við mig allavega. Ég óttast frekar að þetta sé einhver aðili sem er hreinlega að kalla á hjálp, að það sé eitthvað að,“ segir Sælín.

Skemmdarverk á Reyðarfirði1

Skemmdarverk á Reyðarfirði2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.