Efla löggæslu á Djúpavogi

Lögregluembættin á Austurlandi og Suðurlandi hafa gert með sér samkomulag um eflingu löggæslu frá og með Djúpavogi til Hafnar í Hornafirði. Ekki hefur verið fastur lögregluþjónn með starfsstöð á Djúpavogi í á annað ár.

Í byrjun mánaðarins skrifuðu lögreglustjórarnir, Margrét María Sigurðardóttir af Austurlandi og Kjartan Þorkelsson af Suðurlandi, undir samstarfsyfirlýsingu. Í henni eru skilgreind markmið um að styrkja og efla löggæslu á Suður- og Austurlandi, einkum milli Hafnar og Djúpavogs, en þar eru mörk embættanna.

Tilgangurinn er að auka öryggi, vegfarenda og lögregluþjóna á svæðinu, auk þess að bæta nýtingu fjármuna. Sérstaklega á að auka samvinnu í umferðarmálum til að koma í veg fyrir umferðaróhöpp og slys. Til þessa munu embættin starfa saman að umferðarvöktun, leit og björgun, rannsóknum sakamála og þjálfun starfsfólks.

Ekki hefur verið fastur lögregluþjónn á Djúpavogi í á annað ár og ekki tekist að ráða þrátt fyrir auglýsingar. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir samstarfssamninginn nú ekki tengjast þeirri stöðu, að öðru leyti en því að betri stuðningur verði við þann sem verði ráðinn.

Áfram verði leitað að lögregluþjóni til starfa á Djúpavogi. Inn í þá leit blandast síðan húsnæðismál lögreglunnar á Djúpavogi. Lögreglustöðin þar er komin nokkuð til ára sinna en á vegum sveitarfélagsins Múlaþings er unnið að hugmyndum um sameiginlegt húsnæði fyrir slökkvilið, björgunarsveit og lögreglu. „Við vonumst eftir nýju húsnæði fyrir lögregluna fljótlega,“ segir Kristján Ólafur.

Ræst hefur úr stöðunni um stundarsakir þar sem tveir lögregluþjónar verða á Djúpavogi þennan mánuðinn. Þess utan eru skipulagðar eftirlitsferðir frá Egilsstöðum og Eskifirði. „Þær eru tíðar þannig við reynum að halda úti eins mikilli löggæslu og hægt er þar til við fáum lögregluþjón í fullu starfi,“ segir Kristján Ólafur að lokum.

Frá undirritun samstarfssamnings í stjórnsýsluhúsinu Geysi á Djúpavogi. Frá vinstri; Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Austurlandi, Margrét María Sigurðardóttir lögreglustjóri á Austurlandi, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi og Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Mynd: Lögreglan. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.