Djúpivogur í sameiningarviðræðum: Rétt að láta reyna á samtalið

Annar fundurinn í sameiningarviðræðum Djúpavogshrepps, sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps var haldinn á Kirkjubæjarklaustri á miðvikudag. Oddviti Djúpavogshrepps segir stuðning ríkisins geta ráðið miklu um framþróun viðræðnanna.


„Hornfirðingar óskuðu eftir viðræðum og þá byrjar maður ekki á að slá á puttann á þeim frekar en öðrum heldur gá í pokann. Það vildu allir aðilar setjast niður og láta reyna á samtalið,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps.

Andrés segir Djúpavogshrepp nálgast viðræðurnar líkt og aðrar sameiningarviðræður sem farið hafi verið í við Breiðdal og Fljótsdalshéraðs. Sameining við Breiðdal hefði skilað of lítilli einingu og þar með ekki nægri hagkvæmni á meðan viðræðurnar við Hérað fóru út um þúfur þegar sjóður ríkisins til sameiningar sveitarfélaga þurrkaðist upp í hruninu.

Andrés segir sameiningu til suðurs velta mikið á hvað ríkið sé til í að leggja með henni. „Við vitum ekkert um framhald viðræðnanna nema að það verður einhvern tíman kosið um þetta. Það eru enn margir óvissuþættir. Þetta mun mikið standa og falla með hvað ríkisvaldið er til í að koma með að slíkri sameiningu.“

Fundurinn á miðvikudag var númer tvö í röðinni og þar var að sögn Andrésar farið yfir hvaða málaflokka þurfi helst að leggja áherslu á. Markmið sameiningar sé ekki hagræðing heldur efling samfélagsins en sveitarfélagið yrði gríðarlega stórt.

„Það er ekki horft á niðurskurð í neinum sviðum. Það getur verið styrkur fyrir jaðarbyggðirnar að vera fjarri kjarnanum því þá er ekki í boði að taka þjónustu af. Djúpavogshreppur er með hátt þjónustustig en það er forsenda búsetu.“

Andrés segist þeirrar skoðunar að best væri ef sveitarfélög gætu sem lengst verið sjálfstæð en með auknum verkefnum eigi hin minni erfitt með að uppfylla lögboðnar skyldur sínar.

Sameining ætti heldur ekki að breyta neinu varðandi samskipti Djúpavogsbúa við nágranna sína í norðri. „Við lokum engum landamærum. Það verður ekki ferðast minna milli Héraðs og Djúpavogs en verið hefur, ekki minni pressi á Axarveg og Djúpavogsbúar nota flugvöllinn ekki minna.“

Reiknað er með að næsti fundur verði á Djúpavogi í október.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.