Deila um yfirráð yfir heitu vatni við Selárdalslaug

Tvö mál eru fyrir héraðsdómi Austurlands sem tengjast deilum um yfirráð yfir landi og heitu vatni við Selárdalslaug í Vopnafirði. Deilt er um túlkun jarðasölusamning frá árinu 1963.


Í dag verður tekin fyrir stefna hreppsins gegn Veiðifélagi Selár en hreppurinn krefur félagið um greiðslur fyrir heitt vatn sem dælt er upp við sundlaugina og leitt í veiðihús félagsins sem er þar skammt frá.

Búist er við að rétturinn fresti málflutningi því hreppurinn hefur á ný stefnt Fremri-Nýpum ehf. fyrir dóminn því deilt er um eignarhaldið á vatninu. Hæstiréttur staðfesti fyrir áramót frávísun héraðsdóms á málinu.

Hreppurinn krefst staðfestingar á eign á spildu í jörðinni Fremri-Nýpum samkvæmt afsali frá árinu 1963. Sveitarfélagið seldi þá jörðina en undanskili sundlaugina ásamt „nauðsynlegu athafnasvæði, sem mælt verður út og verður eign Ungmennafélags Vopnafjarðar og deildum þess.“

Það dróst hins vegar að spildan væri mæld út og var loks gengið í verkið árið 2015, vegna deilna hreppsins við Veiðifélagið á innheimtu á gjaldi fyrir heitt vatn úr borholu við sundlaugina. Hreppurinn stefndi málinu fyrir dóm í janúar í fyrra.

Núverandi ábúandi á jörðinni hefur búið þar frá 1970 og eignaðist hana árið 1981 en seldi hana inn í Fremri-Nýpur ehf. Það félag er í hálfu í eigu ábúenda og hálfu í eigu Jóhannesar Kristinssonar, athafnamanns í Lúxemborg sem á fjölda jarða í Vopnafirði að hluta eða heild.

Krafa hreppsins nær ekki um land niður að Selá og varðar því ekki á nokkurn hátt veiðirétt í ánni.

Í dómi kemur fram að ekki hafi verið stofnað með formlegum hætti til sérstakrar fasteignar við söluna árið 1963. Væri fallist á dómkröfur hreppsins yrði strax til sjálfstæð fasteign. Því var stefnu Vopnafjarðarhrepps vísað frá en sem fyrr segir hefur málinu verið stefnt aftur fyrir dóm til úrlausnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.