„Covid er enn þá til“

Álag er að aukast á Heilbrigðisstofnun Austurlands vegna fjölgunar Covid-smita í samfélaginu. Gestir bæði heilsugæslustöðva og hjúkrunarheimila eru beðnir um að sýna sérstaka aðgát verði þeir varir við minnstu einkenni.

HSA sendi í gær frá sér tilkynningu um að af gefnu tilefni væri fólk með öndunarfæraeinkenni beðið um að hafa samband í síma fyrir komu sína á heilsugæslustöð.

„Það hefur komið til okkar fólk því það óttast að það sé með Covid og gengur jafnvel á leið sinni til móttökuritara framhjá fólki sem bíður eftir tíma. Við eigum erfitt með að stöðva þessar komur en vegna aukningar nýsmita í samfélaginu er fullt tilefni til að við umgöngumst hvert annað af virðingu og þeirri fjarlægð sem mælt hefur verið með til að minnka áhættuna.

Við hvetjum fólk til að taka heimapróf til að útiloka að það sé með Covid fyrir komu til okkar eða taka símtalið fyrst. Eins er búið að setja grímur í anddyri allra heilsugæslustöðva sem fólk getur gripið,“ segir Jónína G. Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði HSA.

Þeir einstaklingar sem sýna einkenni geta fengið símatíma hjá hjúkrunarfræðingum HSA samdægurs. Á Heilsuveru og Covid.is eru einnig í boði netspjall við hjúkrunarfræðinga á vakt fyrir allt landið.

Skapar álag á HSA

Vegna sumarleyfa er álag á því starfsfólki HSA sem sé í vinnu og því til mikils að vinna að halda aftur af smitum, hvort sem er í samfélaginu eða innan starfsfólks. Verklag hefur verið sett upp til að hindra að starfsfólk beri með sér smit inn á starfsstöðvar. „Það eru áskoranir í mönnun en þetta hefur gengið,“ segir Jónína.

Tilmæli hafa verið send út til aðstandenda íbúa hjúkrunarheimila um að koma ekki í heimsókn við minnstu Covid-einkenni og gæta að persónulegum sóttvörnum.

Heilbrigðisstarfsfólk í landinu fundar vikulega til að taka stöðuna í faraldrinum. Jónína segir að á slíkum fundi í morgun hafi komið fram að um tíu prósent þeirra sem veikist nú sé að fá veiruna í fyrsta sinn, bylgjan nú sé annars borin uppi af þeim sem ekki hafa smitast áður. Þá sé ljóst að veikindi óbólusettra séu alvarlegri heldur en þeirra sem eru bólusóttir.

Einkennin geta verið lúmsk

Sóttvarnatakmarkanir voru afnumdar hérlendis í lok febrúar en fram í apríl var fjöldi smita í samfélaginu. Með afnámi haftanna slakaði fólk og yfirvöld verulega á vörnum gegn veirunni. „Covid er enn til og því verðum við að vera vakandi fyrir einkennunum.“

Algengustu einkennin eru hin sömu og að kvefi eða flensu, nefrennsli, hósti, hiti en einnig sjaldgæfari eins og uppköst eða niðurgangur. „Einkennin geta verið alls konar. Margir sem greinast segja að þeim hefði aldrei dottið að þeir væru með Covid, eru kannski aðeins rámir í hálsi. Þess vegna skiptir máli að láta sér detta Covid við minnstu einkenni og mæta þá í sýnatöku, eða að minnsta kosti taka heimapróf,“ segir Jónína.

Bólusetning dregur úr líkum á alvarlegum veikindum

Búið er að auka við sýnatökur hjá HSA því þær eru nú einnig í boði á Reyðarfirði. Þar eru þær mánudaga og fimmtudaga 11:30-12:00 en á Egilsstöðum þriðjudaga og föstudaga 12:15-12:45. Bóka þarf sýnatökuna fyrirfram á heilsuvera.is. Hægt er að hafa samband við heilsugæslustöðvarnar á Djúpavogi og Vopnafirði til að fá sýnatökur þar.

Eins er vaxandi ásókn í bólusetningu en um 150 manns hafa þegið bóluefni í þessari viku. Hægt er að óska eftir bólusetningu með að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Erlendis frá eru vísbendingar um að bóluefnin sem nú eru á markaðinum eigi erfiðra með að koma í veg fyrir sýkingar af því afbrigði veirunnar sem nú er ráðandi, Omicron BA.5 en fyrri útgáfur hennar. Væntanleg eru bóluefni sem eiga að ráða betur við afbrigðið en Jónína segist ekkert hafa heyrt um komu þeirra austur. Það breytir því ekki að bólusetningin dregur úr líkum á alvarlegum sýkingum. „Bólusetningin örvar ónæmiskerfið og því er haldið á tánum til að bregðast við þegar fólk smitast,“ bendir Jónína á.

Til mikils sé að vinna því fólk er stundum lengi að hrista af sér afleiðingar sýkingar. „Það sem er kannski mest ógnvekjandi er að maður veit aldrei hvað situr eftir í fólki. Við höfum heyrt ýmislegt en það er verið að skoða það betur með rannsóknum.“

Nánari upplýsingar um þjónustu og viðbragð HSA við Covid-veirunni dag frá degi eru á Facebook-síðu stofnunarinnar og vef hennar, www.hsa.is. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.