Skip to main content

Bryndís Ford ráðinn framkvæmdastjóri Austurbrúar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. des 2024 15:23Uppfært 04. des 2024 16:12

Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Austurbrúar. Hún tekur við starfinu eftir áramót þegar Dagmar Ýr Stefánsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri, verður sveitarstjóri Múlaþings.


Þetta kemur fram í tilkynningu frá Austurbrú. Þar segir að Bryndís hafi vakið athygli fyrir kraft sinn sem skólameistari og leitt þar umfangsmiklar breytingar á starfi skólans.

Bryndís er fædd árið 1978 og alinn upp í Reykjavík en hefur búið á Austurlandi frá árinu 2000. Hún er menntaður sjúkraþjálfari og kennari en hefur starfað víða innan heilbrigðis-, mennta- og ferðaþjónustugeirans. Hún hefur verið skólameistari Hallormsstaðaskóla frá árinu 2014.

„Það er spennandi tilhugsun að taka við nýjum verkefnum og fá tækifæri til að nýta reynsluna í þágu Austurlands. Ég hlakka til að vinna með því flotta teymi sem er þar nú þegar. Möguleikar landshlutans eru miklir og sóknarfærin mörg.

Ég er sannfærð um að saman getum við unnið markvisst að því að gera landshlutann enn betri en hann er nú þegar, gert hann að stað þar sem fólk vill búa, starfa og njóta þess að upplifa,“ er haft eftir henni í tilkynningu.