Breiðdælingar mótmæla laxeldi í Stöðvarfirði

Veiðifélag Breiðdæla mótmælir harðlega öllum fyrirætlunum um fiskeldi í Stöðvarfirði. Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um að hefja þar eldi á 7.000 tonnum af laxi.

Frestur til að skila inn athugasemdum við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða um umhverfisáhrif eldisins rann út á þriðjudag.

Áður hafði Veiðifélag Breiðdæla sent frá sér ályktanir um fyrirhugað eldi, meðal annars áskorun til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um að beita sér af öllum krafti gegn eldi í opnum sjókvíum.

Hafrannsóknastofnun leggst gegn eldi með frjóum fiski

Í ályktun félagins er vísað til þess að Hafrannsóknastofnun hafi í áhættumati sínu frá 2017 lagst gegn eldi með frjóum laxi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsár. Þar er áin skilgreind sem ein fjögurra á landsvísu sem vakta þurfi sérstaklega og hún sögð í talverðri hættu vegna innblöndunar eldisfisks.

Matið var endurskoðað í vor og út frá nýjum rannsóknum taldi stofnunin villtum laxastofnum víða minni hætta búin. Hún lagðist þó áfram með öllu gegn eldi með frjóum laxi í Stöðvarfirði. Þess vegna byggir umsókn Fiskeldis Austfjarða á því að þar verði alinn ófrjór lax en fyrirtækið áskilur sér þó rétt til að breyta um ef áhættumatið verður rýmkað síðar.

Óttast um lífríki árinnar

Í ályktun Veiðifélagsins er fullyrt að dæmin sýni að erfðablöndun verði milli villtra laxastofna og eldislax þegar lax sé alinn í opnum sjókvíum í námunda við hrygningarsvæði villtra laxa. Breiðdalsá er í um 18 km fjarlægð frá fyrirhugðu eldissvæði. Í frummatsskýrslu Fiskeldisins er því haldið fram að áhættan á blönduninni sé óveruleg þar sem lax sem sleppi úr eldi eigi mjög erfitt með að lifa af, hvað þá geta af sér afkvæmi, í náttúrunni.

Í ályktun Veiðifélagsins segir að engar rannsóknir eða vísindi staðfesti breytingar á áhættumatinu og því krefst það þess að Hafrannsóknastofnun standi við orð sín. Þá lýsir félagið fullri ábyrgð á hendur opinberum stofnunum sem standi að leyfisveitingum gagnvart öllum þeim skaða sem eldið muni valda á lífríki Breiðdalsár og hagsmunum landeigenda.

Einstakur stofn

Þar er enn fremur vísað til þess að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýni að erfðamengi laxastofns Breiðdalsár sé ekki að finna í öðrum laxveiðiám og sé því sérstakur. „Okkur sem samfélag ber að vernda þennan einstaka stofn því ekki verður aftur snúið ef erfðablöndun á sér stað við norskan eldislax,“ segir þar.

Í frummatsskýrslunni er því þó haldið fram að laxastofn hafi ekki verið í Breiðdalsá fyrr en eftir 1967 þegar byrjað var að rækta hana upp með að sleppa í hana seiðum af villtum stofni.

Að þessu sögðu mótmælir Veiðifélagið eldisáformunum harðlega og skorar á bæjarstjórn Fjarðabyggðar að beita öllum ráðum til að vernda lífríki árinnar fyrir ógninni sem starfi af fyrirhugðu eldi. Erindi Veiðifélagsins er meðal þeirra mála sem liggja fyrir bæjarstjórn Fjarðabyggðar sem fundar seinni partinn í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.