Breiðdalsá í mestri hættu af strokulaxi úr eldi

Lagst er gegn fiskeldi í Stöðvarfirði vegna hættu á blöndunar eldislax þaðan við villtan lax í Breiðdalsá í nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Á sömu forsendu er lagt til að eldi með frjóum fiski í Berufirði verði takmarkað við sex þúsund tonn.


Matið, sem unnið var í samstarfi við erlenda sérfræðinga, byggir á dreifingarlíkani sem sýnir hvernig eldislax getur dreifst út frá þeim svæðum sem veitt hefur verið leyfi til laxeldis á á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Niðurstaðan er að Breiðdalsá sé sú á sem í mestri hættu sé vegna blöndunar laxastofna og er þessa vegna lagst gegn eldi í Stöðvarfirði og það ekki aukið í Berufirði.

Skýrsluhöfundar telja óhætt að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land, þar af 21.000 tonn á ári á Austfjörðum, 6.000 tonn í Berufirði og 15.000 tonn í annað hvort Reyðarfirði eða Fáskrúðsfirði. Þegar hefur verið gefið út leyfi fyrir 8000 tonna eldi á frjóum laxi í Berufirði og sex þúsund tonn í Reyðarfirði.

Gert er ráð fyrir að framleiðslan hérlendis í ár verði um 10.000 tonn. Leyfi eru fyrir 30.000 tonna eldi í kringum landið. Athygli er þó vakin á að hægt sé að bæta til viðbótar sé hægt að rækta ófrjóan lax, 31.000 tonn á Austfjörðum. 

Ekki er lagt á mat á svæði þar sem ekki hefur verið veitt leyfi til eldis en hugmyndir eru uppi um eldi í Seyðisfirði og Norðfjarðarflóa auk aukningar á eldis víðar.

Almennt lítil blöndunarhætt á Íslandi

Í skýrslunni segir að íslensku eldissvæðin séu almennt fjarri helstu laxveiðiám. Í Noregi og Skotlandi sé svo ekki farið og því blandist laxastofnarnir frekar saman. Vísað er til nýrrar norskrar rannsóknar um að þar hafi orðið talsverð blöndun.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að nokkur munur er á milli laxa í íslenskum ár. Í raun á hver á sinn sinn sérstaka stofn og síðan er íslenskur lax fjarskyldur öðrum Atlantshafslaxi. Samanburðarrannsóknir á eldislaxi og villtum laxi hafa sýnt marktækan mun á þáttum eins og hegðun, kynþroska, útliti og sjúkdómsþoli en munurinn er þó mestur hvað varðar vaxtarhraða.

Komast ekki langt þótt þeir sleppi


Þrátt fyrir verulega aukið laxeldi spáir líkanið mjög lítilli innblöndun, langt undir viðmiðunarmörkum, í öllum helstu laxveiðiám landsins, nema Breiðdalsá, vegna þeirra takmarkana sem þegar eru í gildi á landinu.

Þær byggja meðal annars á fenginni reynslu af fyrri tilraunum í laxeldi. Í skýrslunni er rifjað upp að 2900 fullvaxnir eldislaxar hafi sloppið úr sláturkví í Norðfjarðarhöfn í ágúst 2003. Af þeim tókst að fanga 109 laxa, flesta í Norðfirði.

Tíu fiskar veiddust það haust í austfirskum laxveiðiám, sex í Breiðdalsá en fjórir í ám í Vopnafirði. Langflestir strokufiskanna týndust því í hafi. Tekið er fram að aðeins lítill hluti strokulaxa nái að synda upp í ár til að hrygna, langflestir þeirra eigi erfitt með að komast af í villtri náttúrunni og ráðast möguleikar þeirra til að komast af á nálægð sleppistaðar við árósa og aldri við strok.

Sveitarfélög vilja að ráðherra bíði með ákvarðanir

Áhættumatið kom út um miðjan júlí, aðeins um mánuði eftir að Hafrannsóknastofnun sendi frá sér burðarþolsrannsóknir á Stöðvarfirði þar sem talið var óhætt að leyfa allt að sjö þúsund tonna eldi á ári. Burðarþolsmat er sjaldnast endanlegt en það byggir á rannsóknum á straumum í fjörðum. Matið nú byggir á rannsóknum sem fram fóru síðasta vetur.

Áhættumatið hefur vakið talsverð viðbrögð austfirskra sveitarstjórna sem í samvinnu við fleiri hagsmunaðila hafa stefnt að talsverði uppbyggingu atvinnu út frá fiskeldi á svæðinu.

Þannig ítrekaði hafnarstjórn Fjarðabyggðar sameiginlega bókun sveitarfélagsins og Djúpavogshrepps á fundi sínum í vikunni þar sem ráðherra er hvattur til að fresta allri ákvarðanatöku sem byggi á skýrslunni þar sem upplýsingarnar hafi verið sannreyndar. Þá er ráðherra hvattur til að hafa í huga þau efnahagslegu áhrif sem fiskeldið hafi á nálægðar byggðir.

Í bókun hafnarstjórnar er nánari umræða um fiskeldismál boðuð á næstunni, meðal annars með íbúafundi í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.