Borgfirðingar hafa áhyggjur af hraðaakstri í gegnum þorpið

Íbúar á Borgarfirði eystra kalla eftir aðgerðum til að stemma stigu við hraðaakstri í gegnum Bakkagerðisþorp. Grípa verði til aðgerða áður en slys hljótist af.

„Lundinn dregur fólk að og tilfinning okkar er að fólk stilli GPS-tækin á Hafnarhólmann og svo sé keyrt þangað að öðru hundraðinu.

Á sumrin fara 300-400 bílar á dag yfir Vatnsskarðið og það má reikna með að 95% þeirrar umferðar fari í gegnum í bæinn út að höfn til að skoða lundann

Þessi hraði vekur óhug og það eru margir sem spyrja sig hvort það þurfi stórslys til að eitthvað verði gert,“ segir Hafþór Snjólfur Helgason, formaður Ferðamálahóps Borgarfjarðar.

Hópurinn hefur sent frá sér áskorun til hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps, Vegagerðarinnar og lögreglustjórans á Austurlandi um aðgerðir þar sem hraðaeftirlit, merkingar og hraðahindrandi séu af afar skornum skammti.

„Það var gömul brú við innkeyrsluna sem virkaði eins og hraðahindrun. Í stað hennar var settur hólkur og nú liggur hraðbraut í gegn. Það er ekkert sem hægir á fólki, bara eitt skilti. Lögreglan er sömuleiðis sjaldséð hér, það er helst hún sé með eftirlit í kringum þorrablót og Bræðslu,“ segir Hafþór Snjólfur.

Í gegnum þorpið er 35 km hámarkshraði og hafa heimamenn reynt að höfða til samvisku ökumanna. Þannig komu þeir upp barnavögnum og handmáluðum skiltum til að minna á að þar væru börn á ferð síðasta sumar.

Í áskorun hópsins er því beint til þeirra sem valdið hafa í umferðaröryggismáli að bregðast strax sameiginlega við og koma með viðunandi úrbætur og efla eftirlit. Þetta eigi við um allar akstursleiðirnar þrjár sem liggi inn í þorpið.

Bent er á að víða hafi verið komið upp hraðamælum við innkeyrslur í þéttbýli sem sýna hraða ökumönnum hraða farartækis þeirra og hvort hann sé löglegur eða ekki. Hópurinn telji að slíkt tæki gæti lagað ástandið á Borgarfirði til muna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.