Blak: Ótrúlegur tólf stiga kafli Þróttar í mikilvægum sigri á Stjörnunni

Kvennalið Þróttar vann um helgina mikilvægan 3-0 sigur á Stjörnunni í baráttunni um þriðja sætið í Mizuno-deild kvenna. Fyrsta hrina virtist töpuð en Þróttur snéri henni sér í vil með því að skora tólf stig í röð.


Hrinan virtist töpuð í stöðunni 11-20. Þá kom hins vegar einn magnaðist kafli sem sögur fara af í íslenskum blakleik því Þróttur skoraði tólf stig í röð, komst yfir 23-20 og kláraði hrinuna 25-22.

„Það er ekki oft sem ég hef séð eitthvað svipað þessu en mig rámar þó í það,“ sagði Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar um kaflann.

María Rún Karlsdóttir sá um uppgjafirnar á þessum kafla. „Við fengum góðar uppgjafir en hittum kannski á Stjörnuna í veikri stöðu með sína sterkustu sóknarmenn í varnarstöðu.

Þær voru í vandræðum með að taka á móti boltanum á meðan við spiluðum góða vörn og losnuðum við stresshrollinn sem var í byrjun.

Mér fannst við ekki líta til baka eftir þennan kafla og hefðum átt að vinna aðra hrinu fyrr en við gerðum.“

Þar var jafnt upp í 11-11 þegar Þróttur skoraði fjögur stig í röð. Stjörnunni tókst að minnka muninn í 20-18 en Þróttur tók þá leikhlé og skoraði síðustu sjö stigin.

Í þriðju hrinu var jafnt upp í 7-7 en Þróttur breytti á stöðunni í 10-7, síðan 14-8 og 22-11 áður en hrinunni lauk 25-12.

María Rún Karlsdóttir skoraði 15 stig fyrir Þrótt og Ana Maria Vidal 11.

Þróttur er eftir leikinn í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig eftir átta leiki og fjögurra stig forskot á Stjörnuna. KA er með 11 stig úr sjö leikjum og tekur á móti Þrótti eftir tvær vikur.

„Við fengum þarna mikilvæg þrjú stig. Það skipti líka að okkur leið vel eftir leikinn, okkur fannst gaman, að við hefðum spilað vel og unnið fyrir stigunum þremur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.