Björn Ingimarsson áfram sveitarstjóri

Björn Ingimarsson verður áfram sveitarstjóri Múlaþings samkvæmt samkomulagi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun meirihluta í sveitarstjórn. Flokkarnir skipta með sér forseta bæjarstjórnar og formanns byggðaráðs.

Í samkomulaginu segir kemur fram að gengið verði til samninga við Björn um að gegna starfinu áfram. Hann kom fyrst til starfa á Fljótsdalshéraði eftir kosningarnar 2010 og varð sveitarstjóri Múlaþings eftir sameininguna 2020. Hann var viðstaddur undirritun samkomulagsins í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í gær.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, verður forseti bæjarstjórnar en Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður áfram formaður byggðaráðs. Sjálfstæðisflokkurinn fær annan fulltrúa þar að auki en Framsóknarflokkurinn varaformanninn.

Flokkarnir hafa starfað saman í meirihluta síðan Múlaþing varð til 2020. Þá hafði Sjálfstæðisflokkur fjóra fulltrúa og Framsóknarflokkur tvo en hafa nú þrjá hvor. Þessi jöfnun endurspeglast að einhverju leyti í verkskiptingunni. Þannig átti Sjálfstæðisflokkur bæði forseta bæjarstjórnar og formann og varaformann byggðaráðs síðustu tvö ár.

D-listi fær formennsku í fjölskylduráði og einn fulltrúa með en varaformann og fulltrúa í umhverfis-og framkvæmdaráð. Þá fær listinn formann og fulltrúa í stjórn HEF veitna, formann og varaformann heimastjórnar Djúpavogs og einn fulltrúa í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi auk fyrsta varaforseta sveitarstjórnar.

B-listi fær formann og fulltrúa í umhverfis- og framkvæmdaráð, varaformann byggðaráðs, varaformann og fulltrúa í fjölskylduráð, varaformann HEF veitna, formann og varaformann heimastjórna Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar og loks fulltrúa í stjórn SSA. Samkvæmt samkomulaginu verður formaður heimastjórnar Fljótsdalshéraðs jafnframt fulltrúi í svæðisráði austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þá kemur fram að minnihlutinn í sveitarstjórn tilnefni formann og varaformann heimastjórnar Borgarfjarðar, annan varaforseta sveitarstjórnar, fulltrúa og varafulltrúa í svæðisráð þjóðgarðsins og loks tvo varafulltrúa í stjórn SSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.