Björgunarsveitum afhentar færanlegar rafstöðvar

Þrjár austfirskar björgunarsveitir eru meðal þeirra sem þegar hafa fengið afhentar færanlegar rafstöðvar til að efla fjarskiptaöryggi.

Rafstöðvarnar eru hluti af því viðbragði stjórnvalda til að efla innviði eftir óveðrið sem gekk yfir landið í desember árið 2019. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila.

Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði.

Þrettán björgunarsveitir fengu rafstöðvar í fyrra, þar af þrjár á Austurlandi: Ísólfur Seyðisfirði, Hérar Egilsstöðum og Ársól Reyðarfirði. Aðrar þrettán stöðvar bættust við nú í febrúar en í næsta áfanga bætast Djúpivogur og Borgarfjörður eystra við.

Aflstöðvar björgunarsveitanna er hluti af stærra átaksverkefni um eflingu varaafls sem skiptist í tvo áfanga. Í fyrri áfanganum var unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og gerðar voru margvíslegar úrbætur á 68 fjarskiptastöðum. Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum.

Vinna við annan áfanga er að hefjast og þá er stefnt á sambærilegar úrbætur á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Þó hefur þegar tekist gera ýmsar úrbætur á Vestur- og Suðurlandi í tengslum við fyrri áfangann en þeirri vinnu verður haldið áfram.

Neyðarlínan leiðir verkefnið í samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.