Biðu í á þriðja tíma á Fjarðarheiði

Sjö bílar biðu hátt á þriðja klukkutíma tíma eftir aðstoð við Neðri-Staf á Fjarðarheiði í kvöld. Þar hlóðst upp mikill skafl.

„Það er stærðarinnar skafl á veginum við minnisvarðann.

Á háheiðinni var autt og rennifæri þótt það væri smá slydda hér og þar. Svo birtist þessi skafl við minnisvarðann og þar hefur allt setið fast. Veðrið er sturlað hér, líklega 25-30 metrar og slydduhaglél.

Ég hef setið hér föst ásamt sex öðrum bílum síðan hálf níu í kvöld,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Björgunarsveitin Ísólfur var kölluð út ferðalöngunum til aðstoðar. Þeir losnuðu af staðnum um klukkan hálf ellefu eftir að bíll frá Vegagerðinni kom og ruddi skaflinum í burtu. Hann lenti þó í klandri, festist í skaflinum og þurfti aðstoð björgunarsveitamanna til að losna. Heiðin var merkt ófær á korti Vegagerðarinnar laust upp úr klukkan tíu í kvöld.

Hildur segir þetta minna á baráttu Seyðfirðinga fyrir göngum undir heiðina. „Að þetta séu aðstæður Seyðfirðinga 4. maí og engin niðurstaða komin í fulla fjármögnun á göngunum undir Fjarðarheiði er til háborinnar skammar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.