Betri grásleppuveiði en mörg undanfarin ár

Grásleppuvertíðin hefur farið þokkalega af stað að sögn útgerðarmanns á Borgarfirði eystra. Verðhrun á fiskmörkuðum hefur ekki enn komið niður á verðmæti hrogna en vandræði eru að selja fiskinn sjálfan.

„Þetta hefur farið þokkalega af stað. Veiðin hefur verið betri en mörg undanfarin ár. Mér skilst að það sé líka ágætis veiði í Vopnafirði,“ segir Kári Borgar Ásgrímsson, útgerðarmaður á Borgarfirði sem rær frá Bakkafirði.

Vertíðin hófst 10. mars en Kári Borgar beið fram til þess tuttugasta. „Það voru margir byrjaðir á undan mér. Ætli við séum ekki um tíu bátar sem erum byrjaðir. Þeir eru heldur færri en verið hefur,“ segir hann.

Ástæðuna fyrir að ekki fóru allir af stað strax fyrsta daginn eru aðstæður á mörkuðum. Heimsfaraldur covid-19 veirunnar hefur dregið verulega úr eftirspurn á fiskmörkuðum heimsins.

„Það eru vandræði að losna við grásleppuna sjálfa og við fáum lítið fyrir hana. Ég sel hana heila í stað þess að vinna hana sjálfur eins og ég hef gert síðustu ár.

Verðmætin eru í hrognunum, enda eru það þau sem menn hafa í gegnum tíðina sóst eftir. Verðið á þeim var of hátt í fyrra þannig það hefði alltaf lækkað í ár, óháð veirunni. Það virðist ekki ætla að hrynja þannig að faraldurinn hefur víða verri áhrif en á okkur.“

Hafrannsóknastofnun gaf í morgun út ráðgjöf um að heimilt yrði að veiða 4646 tonn á þessari vertíð. Það er álíka mikið og veiddist í fyrra en heldur meira en árin tvö þar á undan. Kári bendir hins vegar á að fjöldi veiðidaga sé það sem mestu máli skiptir. Samkvæmt lögum eru þeir 25 en hann vonast til að ráðgjöfin verði til þess að dögunum verði fjölgað.

Áður hafði sjávarútvegsáðherra gefið út reglugerð sem heimilar útgerð að stöðva veiðar í 14 daga vegna covid veirunnar en Kári segir hana litlu skipta fyrir flesta grásleppusjómenn.

Strekkingsvindur hefur verið á Austurlandi síðustu daga en hann hefur lítil áhrif haft á veiðarnar. „Þetta er mesta furða. Þetta svæði er gott í suðvestan-áttinni og við höfum sloppið betur en margir aðrir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.