Beitir með stærsta loðnufarm Íslandssögunnar: Þegar skipin og veiðarfærin eru stór gengur vel

Beitir NK kom til hafnar í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt með fullfermi, ríflega 3000 tonn. Það mun vera stærsti loðnufarmur sem skip hefur komið með til hafnar hérlendis. Loðnuveiðin þykir ævintýraleg.


„Skipið er stórt og ber mikið. Það var alveg fullt. Þegar skipin eru stór og veiðarfærin líka þá gengur þetta svona vel,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri.

Skipið var 13 tíma á veiðum á Grindavíkurleirum og fékk aflann í fjórum köstum. „Það er mjög gott. Veiðin er búin að vera ævintýraleg. Það er ekki óalgegnt að menn fái eitt þúsund tonna kast en fágætt að þau fáist trekk í trekk.

Þetta hefur eiginlega verið svona síðan við byrjuðum. Á milli lengri túranna stoppuðum við aðeins á Norðfjarðarflóanum. Við vorum komnir 3 mílur og fengum 600 tonn í vinnslu fyrir Japansmarkað.“

Núna þurfa menn að vera séðir. Það þýðir ekki að kasta beint niður í torfuna. Þú sprengir bara nótina ef það kemur of mikið í hana.“

Styttist í hrogn fyrir Japansmarkað

Loðnan sem beitir kom með í nótt fer bæði í bræðslu og hrognatöku. Tómas segir loðnuna líta ágætlega út. Hún sé ekki langt komin í hrognum en þó styttist í að hægt verði að vinna þau á Japansmarkað.

Beitir verður á Norðfirði meðan landað. Það tekur um 18 tíma og því fer skipið væntanlega aftur úr höfn eftir kvöldmat. Siglingin á miðin er um 240 mílna löng og tekur aðra 18 tíma. Skipið verður væntanlega komið þangað á laugardagsmorgun. Hann segir ekki mjög troðið á miðunum enda mikið rennerí þegar svona vel veiðist.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að sé farið 20 ár aftur í tímann megi sjá þessi farmur Beitis jafngildi fullfermisförmum fimm minnstu loðnuskipanna sem þá voru í viðskiptum við Síldarvinnsluna. „Ef hins vegar er farið 10 ár aftur í tímann jafngildir Beitisfarmurinn fullfermisförmum þriggja minnstu viðskiptaskipanna. Má á þessu sjá hver þróun loðnuflotans hefur verið síðustu áratugi.“

Jón Kjartansson fyllti á tólf tímum

Það gengur líka vel hjá skipum fleiri útgerða en Síldarvinnslunnar. Aðalsteinn Jónsson kom til Eskifjarðar í gær. Aflinn fór bæði í mjöl- og lýsisvinnslu en hluti hans verður nýttur í hrognatöku til að prófa hrognalínu nýja frystihússins.

Jón Kjartansson kom til Vopnafjarðar í hádeginu með fullfermi. Skipið var tólf tíma á miðunum. Hjá Loðnuvinnslunni lönduðu í gær tveir færeyskir bátar til hrognatöku.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.