„Beinlínis logið upp á þriðja orkupakkann“

Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður hjá Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum, varð nýverið fyrsti Íslendingurinn til að ljúka meistaranámi á sviði orkuréttar sem fjórir evrópskir háskólar standa saman að. Lokaritgerð Hilmars fjallaði um áhrif þriðja orkupakka Evrópusambandsins á Ísland sem mikið hafa verið rædd hérlendis. Hann segir umræðuna sem verið hefur í gangi um orkupakkann að undanförnu á villigötum.

„Ég skrifaði um ACER (Agency of Cooperation of Energy Regulators) og Ísland og hlutverk stofnunarinnar hér.

Ástæðan fyrir að ég skrifaði um þetta efni er að maður varð var við ýmsar staðhæfingar hér sem mér fannst athyglivert að skoða nánar, eins og að Íslendingar væru að afsala sér rétti til auðlindarinnar, afhenda erlendri stofnun réttinn til að ákveða orkuverð og hvort tengst yrði evrópskum raforkumarkaði í gegnum sæstreng,“ segir Hilmar um lokaritgerð sína í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Hefur ekki áhrif á raforkuverð

„Ég hef verið frekar íhaldssamur varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu en lögfræðileg niðurstaða mín er að menn ýkja verulega áhrif þriðja orkupakkans á þessi atriði. Það kann að vera að sumt sem talið er upp í umræðunni séu atriði sem snúa að því að við erum í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og höfum undirgengist þar ákveðnar skyldur.

Að mínu mati er það skýrt að við Íslendingar ráðum eftir hvaða leikreglum við ákveðum hvaða auðlindir við nýtum. Ég tel heldur ekki að það eitt að innleiða orkupakkann hafi áhrif á raforkuverð. Að tengjast Evrópu með sæstreng getur gert það en þá er farið að blanda saman tveimur ólíkum atriðum.“

Ísland snýr sér til ESA

„Það er rétt að ef við værum að fallast á að ACER fengi sama vald gagnvart Íslandi og öðrum Evrópuríkjum þá værum við komin á mjög hálan ís gagnvart íslensku stjórnarskránni, en við erum ekkert að því.

ESA tekur ákvarðanir sem snúa að EFTA ríkjunum. Síðan geta menn haft skoðun á því hvort ACER hafi of mikil áhrif á ákvörðun ESA en það breytir ekki því lykilatriði að ESA ræður hvað formið varðar.

Þá tel ég að menn ýki mjög stöðu raforkueftirlitsins á Íslandi á grundvelli þriðja orkupakkans. Mér finnst umræðan sem er í gangi villandi og þörf að taka hana á faglegri nótum en ekki svona pólitíska.

Menn eru að einhverju leyti að nota þetta mál til að berjast fyrir ákveðnum breytingum sem þeir telja réttar, en ganga of langt í því með þetta mál. Ég tel að það sé beinlínis logið upp á þriðja orkupakkann.

Takmörkuð áhrif ACER hérlendis

Hilmar segir ACER stofnun sem eigi að samræma starfsemi eftirlitsstofnana innan hvers ríkis. Hún hafi aðeins ákvörðunarvald í tæknilegum atriðum, til dæmis við útgáfu staðla, hins vegar þegar verið sé að tengja saman lönd. Þegar raforkueftirlit þessara landa geti ekki komið sér saman sé hægt að skjóta deilunni til ACER, eða í tilfelli Íslands ESA. Hann telur ACER hafa takmörkuð áhrif hérlendis, sem og áhrif þriðja orkupakkans í heild.

„Að öllu óbreyttu yrðu bein áhrif ACER hérlendis nær engin. ACER hefur reyndar þegar töluverð áhrif því stofnunin býr yfir mikilli þekkingu og upplýsingum. Hún getur reynst raforkueftirlitinu á Íslandi, sem samanstendur af sárafáum einstaklingum, bakland þegar taka þarf afstöðu til atriða sem lúta að þessum markaði.

Fyrst og fremst felur þriðji orkupakkinn í sér auknar kröfur um sjálfstæði raforkueftirlits. Með öðrum orkupakkanum voru gerðar kröfur um sjálfstæði raforkueftirlits gagnvart raforkugeiranum sjálfum en hér eru gerðar kröfur um sjálfstæði gagnvart hinu opinbera þannig að stjórnsýslan hafi ekki of mikið vald yfir ákvörðunum raforkueftirlitsins. Að mínu mati er það mjög mikilvægt hérlendis því raforkugeirinn er meira og minna í eigu ríkisins. Það þarf að tryggja jafnræði milli aðila í geiranum.“

Íslendingar áfram með sitt raforkueftirlit

„Ég er ekki sammála fullyrðingum um að verið sé að gera Orkustofnun, sem er íslenska raforkueftirlitið, að undirstofnun ACER sem Íslendingar hafi ekkert um að segja. Áfram verður til kærunefnd í raforkumálum þangað sem hægt er að skjóta ákvörðunum Orkustofnunar og fara með úrskurði hennar eða Orkustofnunar fyrir íslenska dómstóla.

Annað tekur við þegar kemur að tengingum milli ríkja, en það gerir það hvort sem er. Við erum með gerðardómsákvarðanir, til dæmis um samninga Landsvirkjunar við alþjóðlega orkukaupendur. Þar er verið að semja sig frá íslenskum dómstólum en ekki endilega íslenskum reglum.

Annað sem þriðji orkupakkinn felur í sér eru auknar kröfur til sjálfstæðis flutningsfyrirtækja raforku, í okkar tilfelli Landsnets, sem er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar. Slíkt væri ekki hægt samkvæmt þriðja orkupakkanum en við höfum þegar samið um undanþágu svo það þarf ekki að breytast.“

Ekki framsal á fullveldi

Hann óttast ekki að aðild Íslands að þriðja orkupakkanum hafi áhrif á fullveldi landsins, einkum ekki í samanburði við mörg önnur mál sem þegar hafi verið afgreidd.

„Noregur hefur það fram yfir okkur að þar er sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um að krafist er aukins meirihluta ef mikið vald er framselt til alþjóðlegra stofnana. Því ákvæði var beitt þegar Norðmenn samþykktu aðild að EES. Það var töluverð umræða um þriðja orkupakkann í Noregi síðasta vetur en niðurstaðan var að einfaldur meirihluti væri nægur.

Ef við horfum til þess sem þegar hefur verið framselt af valdi hérlendis með einföldum meirihluta er það fjarlæg fullyrðing að þriðji orkupakkinn standist ekki stjórnarskrána ef allt annað gerir það. Mín skoðun er hins vegar sú, að við ættum að hafa sambærilegt ákvæði í okkar stjórnarskrá og Norðmenn, en það hefur ekkert með þriðja orkupakkann að gera.

Hvert skref telur ekki mikið en það getur verið að ef við skoðum málin í heild sé niðurstaðan að við höfum framselt alltof mikið vald. Við höfum þegar gengið hið minnsta jafnlangt og jafnvel töluvert lengra í framsali valds til dæmis í fjármálageiranum og persónuverndarlöggjöfinni en gert yrði með innleiðingu á þriðja orkupakkanum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.