Baráttudagur verkafólks: Ef við treystum ríkinu fyrir velferðarmálum þá er því klúðrað

Verkalýðsfélaga býður á nýu að berjast fyrir að allir geti komið sér þaki yfir höfuðið, eins og þau hafa áður gert. Hinn frjálsi markaður hefur ekki staðið sig í því hlutverki.


Húsnæðismál voru áhersluatriði á 1. maí í gær af hálfu Alþýðusambands Íslands og þau voru líka fyrirferðamikil í ávarpi gærdagsins frá AFLi Starfsgreinafélagi.

„Ef við treystum ríkisvaldinu fyrir framkvæmd velferðarmála sem við höfum komið á – þá er því klúðrað. Það er bara þannig,“ segir í ávarpinu

„Hinn frjálsi markaður hefur verið að byggja íbúðir fyrir hinna tekjuháu en ekki sinnt þörfum ungs fólks og tekjulágs. Ástandið er grafalvarlegt og það mun ekki lagast nema að ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.“

Þar var gagnrýnt hvernig félagslega húsnæðiskerfið hefði drabbast niður eftir að verkalýðshreyfingin fór út úr því en sveitarfélög og ríki hefðu fært það í hendur markaðinum.

„Staðan núna endurspeglar þessar ákvarðanir, tæpum tveim áratugum síðar. Undir merkjum frelsis hefur tekjulágu fólki verið gert ófært um virk að komast í húsnæði, hvort heldur sem er eigið húsnæði eða leigu. Frelsið verður að helsi.“

Ákvæði um uppbyggingu leiguíbúða var sett inn í kjarasamninga 2015 og ASÍ stofnaði íbúðafélag á 100 ára afmæli sínu í fyrra.

Veikir baráttuna að einstaklingar utan stéttarfélaga fái störfin

Í ávarpinu var bent á hvernig verkalýðsforustan hefði farið fyrir fjölda velferðarmála og framfaramála launafólks, til dæmis varðandi heilbrigðisþjónustu. Svo virðist sem margt að þessu hafi gleymst í dag.

Það sé hins vegar alltaf verkalýðsfélaga að standa vaktina á sínu svæði, hvort sem það leiði til vinsælda eða ekki. Til að tryggja slagkraftinn verði liðsheildin að vera öflug. Í ávarpinu er boðað átak í að tryggja að störf sem félagsmenn AFLs eiga forgangsrétt að samkvæmt kjarasamningum séu það.

„Vinnudeilur síðustu ára hafa fært okkur sanninn um að við höfum sofnað á verðinum – við höfum látið átölulaust að fólk sem vinnur störf sem bundin eru kjarasamningum AFLs og með forgangsréttarákvæði okkar fólk í vil, tilheyri stéttarfélögum sem hér eiga hvergi heima.

Ef við líðum það að ófélagsbundið fólk gangi í okkar störf þá eyðileggur það samstöðu okkar og veikir okkur í baráttunni.“

Nýta orlofsíbúðirnar þegar þeim hentar

Á sama tíma séu ýmsir sem reyna að nýta sér þjónustu AFLs á ódýran máta, til dæmis orlofsíbúðir félagsins.

„Á sama hátt er grátlegt að horfa upp á einyrkja og atvinnurekendur reyna að kaupa sér aðgang að orlofsíbúðum okkar og þjónustu með því að skila málamyndariðgjaldi af sjálfum sér og er athyglisvert að sjá hversu mörg stórmenni virðast lifa á 50.000 króna mánaðarlaunum.

Það er einnig með ólíkindum að fjöldi þeirra sem telja sig málsvara byggðanna kjósa að tilheyra stéttarfélögum í Reykjavík og þá félögum sem ekki sjást á Austurlandi nema til hátíðarbrigða og leggja aldrei vinnu né fé í neitt sem telja má samfélaginu til framdráttar.

Það er líka grátbroslegt að sjá athafnaskáld sem hafa sjaldan lagt fallegt orð til félagsins njóta þess að gista í orlofsíbúðum okkar með því að nýta félagsaðild unglingsins á heimilinu og fer þá lítið fyrir hnjóðsyrðum til okkar á meðan.

Það er með það eins og annað – það vilja margir sitja við eldana en færri kynda þá.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.