Bálhvasst á Austfjörðum í nótt og á morgun

Lögreglan á Austurlandi hefur sent frá sér viðvörun vegna spár um hvassviðri á Austfjörðum frá því í kvöld og fram á föstudagsmorgun.

Gul viðvörun fyrir svæðið var uppfærð í morgun en hún tekur gildi klukkan níu í kvöld og gildir til klukkan sex á föstudagsmorgunn.

Lögreglan sendi svo frá sér tilkynningu eftir hádegið um að á þessum tíma verði bálhvasst auk ofankomu, skafrennings og blindu. Ferðalangar eru þar beðnir um að fylgjast með með veðurspá og upplýsingum frá Vegagerðinni um færð á vegum.

Björgunarsveitir víða um land hafa staðið í ströngu yfir hátíðarnar. Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur því sent frá sér áréttingu til fólks á ferðinni um að huga vel að útbúnaði bíla. Vanbúnir bílar kosti ekki bara farþega sína vandræði heldur aðra sem komist ekki framhjá.

Minnt er á að vera með skóflu, hlý vetrarföt og góða skó í bílnum ef moka þurfi upp bílinn eða aðra. Þá sé gott að láta vita af ferðalögum, til dæmis skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is

En mikilvægast er þó að fara ekki af stað í tvísýni. „Sófinn er jú notalegri en skaflinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.