Austurland vel í stakk búið til að takast á við sóttvarnir

Almannavarnanefnd Austurlands beinir þeim tilmælum til íbúa að hver og einn gæti vel að sínu hlutverki í sóttvörnum. Almennt séu innviðir svæðisins vel í stakk búnir til að takast á við sóttvarnaráðstafanir og önnur verkefni sem komið geta upp vegna kórónaveirunnar Covid-19.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni sem undirrituð er af Kristjáni Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóni og Pétri Heimssyni, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Nefndin hefur fundað reglulega frá 31. janúar vegna útbreiðslu veirunnar. Á fundunum sitja meðal annars fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Austurlands, fulltrúar sveitarfélaganna í umdæminu, slökkviliða og lögreglu sem og fulltrúar Rauða krossins, Landsbjargar, Isavia vegna alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum og Smyril Line vegna Norrænu á Seyðisfirði.

Markmið fundanna hefur verið að undirbúa aðgerðir komi til viðbragða þannig að hlutverk allra sé skýrt í þeim áætlunum sem unnið er eftir. Það er mat almannavarnarnefndar að viðbragðsaðilar og innviðir á Austurlandi séu vel í stakk búnir til að takast á við sóttvarnarráðstafanir og önnur verkefni sem upp geta komið vegna veirunnar.

Áréttað er að mikilvægt sé að hver einasti íbúi hafi í huga sitt mikilvæga hlutverk í sóttvörnum. Því fleiri sem fara eftir leiðbeiningum um sóttvarnir því líklegra er að hægt verði að tefja útbreiðslu. Í því sambandi tekur nefndin undir með sóttvarnarlækni sem beinir því sérstaklega til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem hafa undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að hreinlætisaðgerðum og að forðast mannamót eins og kostur er.

Bent er á aðgengilegar upplýsingar og leiðbeiningar um hreinlæti, handþvott, sprittun o.fl. sem gerir auðvelda að sýna samfélagslega ábyrgð á vef landlæknis www.landlaeknir.is og á vef almannavarna ríkisins www.almannavarnir.is


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.