Austfirskir veitingaaðilar framfylgja reglum

Ekkert nýtt Covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi síðustu tvo daga og fjöldi þeirra sem eru í sóttkví er óbreyttur. Yfirlögregluþjónn segir Austfirðinga almennt standa sig vel í að framfylgja reglum og leiðbeiningum til að hindra útbreiðslu veirunnar.

„Það er mat bæði okkar í lögreglunni og í aðgerðastjórn almannavarnanefndar að hér hafi gengið prýðilega að framfylgja reglum, þótt alltaf megi gera betur,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Tvö Covid-19 smit greindust í fjórðungnum í síðustu viku, hið seinna í lok vikunnar hjá ferðamanni sem kom með Norrænu. Báðir einstaklingarnir eru í einangrun. Þrettán eru í sóttkví. Hvorki hefur fjölgað í henni né verið staðfest nýtt síðustu tvo daga.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði um helgina verulegar athugasemdir við skort á smitvörnum og framfylgd reglna á skemmtistöðum þar. Kristján Ólafur segir lögregluna á Austurlandi ekki hafa orðið annars áskynja en austfirskir rekstraraðilar leggi sig fram við að fara eftir reglunum.

„Okkar tilfinning, sem við vonum að sé rétt, er að staðan hér sé ágæt og vonandi verður hún það áfram. Við höfum verið á tánum síðustu daga vegna breyttra aðstæðna. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að lögreglan kíki við, hvort sem er á veitingastöðum eða tjaldsvæðum og kanni hvernig allt gangi fyrir sig.“

Veðurspá vikunnar er fantagóð fyrir Austurland sem gæti heillað þá Íslendinga sem eru á faraldsfæti. Kristján Ólafur brýnir rekstraraðila og almenning til að halda áfram vöku sinni og huga vel að smitvörnum.

„Það gæti orðið nokkuð umfang á tjaldsvæðunum. Þess vegna hvetjum við alla til að fylgja þeim reglum og leiðbeiningum sem í gildi eru og standa okkur áfram vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.