Austfirskir sjómenn eru eitilharðir í verkfalli

Formaður Sjómannadeildar AFLs segir baráttuhug í austfirskum sjómönnum sem hafa verið í verkfalli í einn og hálfan mánuð. Helst hefur strandað á deilum um hlutdeild í olíuverði.

„Hljóðið í mönnum er enn eitilhart og þeir ætla að klára þetta,“ segir Grétar Ólafsson, formaður sjómannadeildar AFLs og ritari Sjómannasambands Íslands.

Formaður og varaformaður deildarinnar héldu nýverið fundi á Höfn, Norðfirði, Seyðisfirði og Reyðarfirði til að ræða stöðuna í samningaviðræðunum. Grétar segist hafa verið reglulega ánægður með mætingu á fundi. „Menn eru greinilega farnir að hafa áhuga á kjaramálum.“

Sama svarið hafi verið alls staðar. „Menn hafa verið mánuð í verkfalli og ætla ekki að bakka.“

Upp úr viðræðum Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi slitnaði fyrir viku en boðað hefur verið samningafundar á morgun.

Ásteytingarsteinninn hefur verið kostnaðarhlutdeild sjómanna í olíuverði sem þeir vilja fá lækkaða. „Okkur fannst hún of há miðað við þegar þessu fyrirkomulagi var komið á. Rekstrarumhverfi útgerðarinnar þá var miklu verra.

Hagnaður af útgerðinni er meiri nú en þá þannig við teljum okkur vera búna að aðstoða útgerðina í gegnum krísuna og viljum fá þetta til baka.“

Hann segist ekki vita hvort það sé að rofa til í samningsátt. „Við förum áfram með sömu kröfur en það er spurning hvaða svör við fáum á morgun. Ég er ekki bjartsýnn en ég sé ekki inní framtíðina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.