Austfirskir hjúkrunarfræðingar: Óskiljanlegur niðurskurður

Image Austfirskir hjúkrunarfræðingar segja niðurskurð á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Austurlands lýsa algjöru skilningsleysi á þýðingu heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa fjórðungsins. HSA gæti þurft að segja upp þriðjungi starfsfólks síns vegna hans.

 

Þetta kemur fram í ályktun sem félag þeirra sendi frá sér í kvöld. Þar segir:

„Nú hefur verið kynnt frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011. Samkvæmt þessu frumvarpi á að skera niður í rekstri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) um tæpan hálfan milljarð eða um sömu krónutölu og hjá Landspítala. Loka á sjúkrarúmum á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Vopnafirði og segja upp þriðjungi starfsfólks stofnunarinnar.

Þessar fyrirhuguðu aðgerðir eiga sér ekkert fordæmi og eru óskiljanlegar með öllu. Þær lýsa algjöru skilningsleysi á þýðingu heilbrigðisþjónustu fyrir þá rúmlega 10.000 íbúa sem búa á svæðinu.  Mikill vafi er á hvort þessi tilfærsla á heilbrigðisþjónustu muni skila einhverjum ávinningi.

Meðan uppgangur var í þjóðfélaginu var stöðugt verið að spara í heilbrigðiskerfinu. Þá lögðu hjúkrunarfræðingar sem aðrar heilbrigðisstéttir hart að sér til að mæta þeim sparnaði. Þrátt fyrir þetta horfum við sem störfum við HSA upp á að skera eigi niður sem aldrei fyrr. Líta má svo á að með því sé ekkert gert úr okkar framlagi til lækkunar útgjalda í heilbrigðiskerfinu.

Hjúkrunarfræðingar eru ein þeirra stétta sem bundin er þagnarskyldu við störf sín. En nú má ekki lengur sitja og þegja, við þurfum að láta í okkur heyra. Við höfum lagt okkur fram um að standa vörð um skjólstæðinga okkar en við og fjölskyldur okkar erum einnig þiggjendur heilbrigðisþjónustunnar. Þessar aðgerðir eru ekki aðeins grófleg aðför að störfum okkar og að skjólstæðingum okkar, heldur einnig að búsetu í landsfjórðungnum.

Við mótmælum harðlega þessum ómarkvissu aðgerðum stjórnvalda og hvetjum þingmenn til þess að hafna þessum liðum frumvarpsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.