Austfirsk fyrirtæki og stofnanir hafa lagst gegn borgarferðum

Austfirsk fyrirtæki og stofnanir hafa síðustu daga sent tilmæli til starfsmanna um að fara ekki til höfuðborgarsvæðisins og jafnvel beðið þá sem eru að koma þaðan að vinna heima hjá sér fyrstu dagana á eftir.

„Við sendum póst á starfsmenn í gær þar sem við réðum fólki frá því að ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu til að minnka líkur á að smit bærist inn. Við erum með nánari reglur í skoðun en það er ekki ólíklegt að við munum kveða fastar að orði,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

Dagmar staðfesti að starfsmanni hefði nýverið ráðlagt að mæta ekki til vinnu eftir að hafa komið heim úr borginni þar sem viðkomandi hafði farið út á lífið, á sama tíma og smit komu upp á skemmtistöðu. Dagmar segist ekki kannast við nema eitt slíkt dæmi og þar hafi leiðtogi vaktarinnar tekið ákvörðunina. Að senda starfsmenn heim eftir borgarferð væri ekki stefna fyrirtækisins enn.

Hjá Austurbrú var starfsmönnum, sem verið höfðu á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi, ráðlagt í byrjun vikunnar að vera heima fyrstu fimm dagana eftir heimkomu.

„Við sáum í hvað stefndi á sunnudag. Þá voru nokkrir starfsmenn á eigin vegum syðra og ég ræddi við þá um að vinna heima fyrstu dagana eftir að þeir kæmu heim. Það voru allir sáttir við það,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Jóna Árný segir að sú stefna hafi einnig verið mörkuð hjá Austurbrú að starfsmenn fari ekki úr úr fjórðungnum nema eftir sérstaka umræðu og leitað sé leiða til að komast hjá ferðum eins og hægt er. Um það sé samstaða.

Seinni partinn í gær kom tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi þar sem lagst var gegn ferðum eða gestakomum frá höfuðborgarsvæðinu nema þær væru bráðnauðsynlegar. Áður hafði aðgerðastjórnin nokkrum sinnum í daglegum tilkynningum hvatt til ýtrustu varúðar bæði meðan ferðum stæði sem og eftir heimkomu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.