Austfirðingar minnast Ólafar Nordal

Fjölmargir Austfirðingar, jafnt samflokksmenn sem aðrir, hafa minnst Ólafar Nordal, fyrrverandi þingmanns fjórðungsins, á samfélagsmiðlum. Samflokksmenn minnast hennar sem lærimeistara og aðrir sem manneskju sem lagði sig fram um að miðla málum. Ólöf lést í gærmorgun eftir baráttu við krabbamein.


Ólöf bjó á Egilsstöðum, var þingmaður Norðausturkjördæmis 2007-9 áður en hún færði sig til Reykjavíkur. Þá var hún formaður Auðar, félags Sjálfstæðiskvenna á Austurlandi 2006-9.

„Hún var einstök manneskja, trú sínu og sínum, einlæg, ákveðin en sanngjörn og hafði afar þægilega nærveru. Það var alltaf gaman að vera í kringum Ólöfu. Hún hefur verið mér mikil fyrirmynd í gegnum tíðina og kenndi mér margt. Ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir að hafa sýnt mér þann heiður að gera mig að kosningastjóra hennar þegar hún fór í prófkjör til Alþingis árið 2006, það var lærdómsríkt og skemmtilegt,“ skrifar Ragnar Sigurðsson, veitingamaður á Reyðarfirði og varabæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.

Fleira Sjálfstæðisfólk úr fjórðungnum minnist Ólafar á svipaðan hátt sem góðrar fyrirmyndar.

„Ég hitti hana fyrst þegar ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum þegar við nemendur í stjórnmálafræði vorum að skipuleggja fund fyrir rökræður frambjóðenda flokka úr NA-kjördæmi. Ég sá strax að hún var ákveðin, málefnaleg og föst á sínu, en á móti með hlýtt viðmót. Þetta er kona sem ég hef tekið mér til fyrirmyndar í stjórnmálum, hennar verður sárt saknað,“ segir Viktor Andersen á Seyðisfirði.

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst henni og fengið að læra ýmislegt af henni á árunum 2006-2009 sérstaklega. Flott fyrirmynd fyrir mig og komandi kynslóðir,“ skrifar Elín Káradóttir frá Egilsstöðum.

„Eldklár og skemmtileg, hjartahlý og töff. Einstakur stjórnmálamaður með magnaða hæfileika til að hlusta og fá fólk til að hlusta,“ eru orð Kristínar Ágústsdóttur á Norðfirði.

En það eru fleiri sem hafa fögur orð um Ólöfu heldur en samflokksfólk.

„Hún reyndist okkur Austlendingum góður málsvari og gott að leita til hennar bæði sem þingmanns og ekki síður sem innanríkisráðherra,“ eru orð Sigrúnar Blöndal, formanns Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

„Það var lán að fá að kynnast henni. Við vorum ekki sammála í pólitík, en hún var svo málefnaleg að maður fann gjarnan ekki fyrir því. Það að fá að kynnast henni bæði austur á Héraði og á Alþingi var skemmtilegt, hún var bæði landsbyggðakona og stolt af borginni sinni. Við erum fátækari án hennar,“ skrifar Jónína Rós Guðmundsdóttir sem fór á þing fyrir Samfylkinguna í kjördæminu um leið og Ólöf.

„Ég fékk að kynnast Ólöfu í störfum hennar sem innanríkisráðherra, fannst hún hafa sérstakt lag á því að ræða um mörg vandmeðfarin málefni þess ráðuneytis og að vinna með ólík sjónarmið bæði í umræðu í þinginu og öðru samstarfi,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á síðasta kjörtímabili.

Öll lýsa andláti Ólafar sem sorgarfregn og senda fjölskyldu hennar, vinum og samstarfsfólki samúðarkveðjur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.