Austfirðingar leggja til fiskiskipin í togararallið

Tvö rannsóknarskip og tvö fiskiskip, bæði frá Austurlandi, taka nú þátt í togararalli Hafrannsóknarstofnunar. Verkefnið hefur verið gert á sambærilegan hátt á hverju ári frá 1985.


Togararallið, eða marsrallið, er stofnmæling á botnfiskum á Íslandsmiðum. Það stendur yfir næstu þrjár vikurnar og á þeim tíma verður togað á 600 stöðvum á 20-500 metra dýpi umhverfis landið.

Fjögur skip taka þátt. Ljósafell SU frá Loðnuvinnslunni Fáskrúðsfirði og Barði NK frá Síldarvinnslunni Neskaupstað auk rannsóknarskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar.

Helstu markmið eru að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, til dæmis á mengandi efnum í sjávarfangi.

Helmingur togstöðva var í upphafi staðsettur af skipstjórum, en öðrum stöðvum var dreift um miðin með tilviljunarkenndum hætti. Undanfarin ár hafa skipstjórar einnig sett út aukastöðvar þar sem von er um þorsk í útköntum.

Úrvinnsla mælinganna og aldursgreiningar fara fram í lok mars og helstu niðurstöður verða kynntar í apríl.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.