Austfirðingum boðið upp á heilsufarsmælingar

SÍBS og samstarfsfélög bjóða íbúum Austurlands í ókeypis heilsufarsmælingu í næstu viku. Skorað er á alla þá sem ekki eru undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og ekki þekkja gildin sín að nota tækifærið og fá mælingu.

Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleiri gildi, auk þess sem fólki gefst kostur á að taka þátt í könnun um heilbrigði og lifnaðarhætti og sjá útkomu sína í nafnlausum samanburði við aðra.

Mælingarnar eru hluti af hringferðum SÍBS Líf og heilsa um landið þar sem þúsundir hafa þegið ókeypis mælingu, að því er segir í fréttatilkynningu.

Snemmgreining skilar sér hundraðþúsundfalt

Því yngra sem fólk er þegar það byrjar að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðfitu og blóðsykri, því líklegra er að takist að koma í veg fyrir að það þrói með sér alvarlega og langvinna sjúkdóma.

„Ef hægt er að varna því að einstaklingur látist 20 árum fyrir aldur fram eða verji jafn löngum tíma við örorku af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma, þá sparar það samfélaginu 150 milljónir króna mælt í landsframleiðslu á mann.

Þar sem grunnkostnaður við hverja mælingu er um 1500 krónur skilar ein slík snemmgreining sér hundraðþúsundfalt í krónum og aurum – til að tala nú ekki um alla þá mannlegu þjáningu sem hægt er að afstýra,“ segir Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS.

Hann segir að í hvert skipti sem mælt sé finnist einstaklingar sem í kjölfarið leiti á heilsugæsluna til að fá staðfest hvort þeir þurfi á meðferð að halda við m.a. háþrýstingi, of háu kólesteróli eða skertu sykurþoli. Ódýr lyfjagjöf ásamt ráðgjöf um bættan lífsstíl geti þar gert gæfumuninn.

Opinber stuðningur og samstarf lykilatriði

Guðmundur segir afar ánægjulegt hversu gott samstarf hafi tekist við heilbrigðisstofnanir um allt land um framkvæmd mælinganna, því það sé lykilatriði að koma þeim einstaklingum áfram inn í heilbrigðiskerfið sem skimast með há gildi. Eystra eru mælingarnar gerðar í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Austurlands.

„Heildstætt samstarf við heilbrigðisstofnanir og bæjarfélög á hverjum stað skiptir höfuðmáli, og það er sérlega ánægjulegt þegar tekst að tengja mælingarnar við verkefnið Heilsueflandi samfélag sem Embætti landlæknis vinnur að með sveitarfélögum.“

Mælingar fara fram á eftirtöldum stöðum:

Höfn í Hornafirði 11/08 (lau) kl. 14-17 - Nýheimar þekkingarsetur, Litlubrú 2
Djúpivogur 12/08 (sun) kl. 10-12 - Íþróttamiðstöð, Vörðu 4
Breiðdalsvík 12/08 (sun) kl. 15-17 - Breiðdalssetur Sæberg 1
Fáskrúðsfjörður 13/08 (mán) kl. 09-12 - Heilsugæslan Hlíðargötu 60
Stöðvarfjörður 13/08 (mán) kl. 15-17 - Brekkan Stöðvarfirði Fjarðarbraut 44
Reyðarfjörður 14/08 (þri) kl. 09-13 - Heilsugæslan Búðareyri 8
Eskifjörður 14/08 (þri) kl. 16-18 - Valhöll við Strandgötu
Norðfjörður 15/08 (mið) kl. 09-14 - Heilsugæslan Mýrargötu 20
Egilsstaðir 16/08 (fim) kl. 09-15 - Heilsugæslan Lagarási 17-19
Seyðisfjörður 17/08 (fös) kl. 09-12 - Heilsugæslan Suðurgötu 8

Ekki þarf að panta fyrirfram heldur mætir fólk á staðinn og tekur númer.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.