Austfirðingar panta flug með hnút í maganum

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi segir nauðsynlegt að endurbyggja traust á innanlandsflug eftir miklar raskanir síðustu mánuði. Hún segir stjórnendur Icelandair hafa lýst yfir miklum vilja til úrbóta á fundi með austfirsku sveitarstjórnarfólki í morgun. Fleiri þurfa þó að koma að borðinu, til dæmis ríkið með endurskoðun skilmála Loftbrúar.

„Fundurinn í morgun var góður. Við viljum eiga gott samtal og áttum það. Það er mikilvægt að það haldi áfram og við fengum líka lof um það. Flugið skiptir bæði íbúa og atvinnulíf á Austurlandi miklu máli og við komum því vel á framfæri.

Við vinnum mikinn vilja til að gera betur – enda þarf að gera mun betur í áætlunarfluginu,“ segir Berglind Harpa.

Vandræðagangur frá áramótum

Miklar raskanir hafa verið á áætlunarflugi innanlands svo að segja frá áramótum. Í upphafi var það veðrið en eftir að samkomutakmörkunum var aflétt jókst eftirspurn eftir flugi snarlega. Á sama tíma voru flugvélarnar sem sinna innanlandsfluginu á leið í ástandsskoðanir. Þær tóku síðan mun lengri tíma en áætlað var og þegar þeim loks lauk tóku við bilanir.

Við þetta bætist að farþegar hafa oft á tíðum fengið ófullnægjandi, misvísandi eða hreinlega rangar upplýsingar. Þá sætir Icelandair harðri gagnrýni fyrir að reyna lítið að koma á móts við farþega þótt seinkanirnar komi þeim í koll og verði til þess að þeir missi af fundum eða læknatímum.

Stjórnendur Icelandair komu austur til fundar í júní og var þá ákveðið að taka stöðuna aftur með haustinu í von um að málin væru komin á betri stað. Þau bötnuðu í sumar en síðan tók aftur að síga á ógæfuhliðina.

Traustið hefur dvínað

„Við vitum að áreiðanleiki flugs hefur verið með eindæmum lélegum. Þjónustan hefur heldur ekki verið góð, fólk þarf að vita hver staðan á fluginu þess er með góðum fyrirvara. Fólk hefur oft fengið skilaboð með stuttum fyrirvara eða boð sem passa ekki við aðstæðurnar. Það verða líka að koma meiri upplýsingar frá fyrirtækinu af hverju flugið stenst ekki. Við komum líka inn á sætaframboðið því það hefur oft verið erfitt að fá flug.

Traust íbúa til fyrirtækis, bæði hér sem víðar, hefur dvínað og við heyrðum að stjórnendur Icelandair eru ákveðnir í að lyfta því upp á ný. Þetta er mikilvæg þjónusta sem bæði atvinnulíf og íbúar treysta á. Við í sveitastjórnunum höfum öll fengið skilaboð og eins er þetta til umræðu hvert sem maður fer sem sýnir hve víðtækt vandamálið er. Það fá allir í magann um leið og þeir panta flug um hvort það muni standast.

Eins og á fyrri fundum fórum við yfir hve mikilvægt er að efla þjónustuna í fjórðungnum, að hér sé lykilaðili sem geti brugðist við. Þannig verður þjónustan um leið persónulegri. Flugfélagið virðist nú vera að stíga það skref. Eins er félagið að fara í vinnu við tegundir flugfargjalda. Fólk hefur verið óánægt með lítinn sveigjanleika í ódýrari fargjöldunum. Við hvöttum Icelandair til að sýna enn meiri þjónustulund og sveigjanleika því þannig verður fólk ánægðara.

Stjórnendur Icelandair fóru yfir aðstæður fyrirtækisins, hvernig brugðist hefur verið við og lofuðu bótum og betrun. Þegar vélar bila hafa þær verið stopp lengur en áður vegna aðstæðna í kerfinu. Eins hafa komið upp veikindi í starfsmannahópnum, svo sem hjá áhöfnum, þannig ekki hefur verið hægt að manna vélar. Þessu hefur félagið ekki miðlað.

Allar þessar skýringar eru skiljanlegar en manni virðist að félagið þurfi að gera betur í mönnun og að fá fleiri vélar. Við erum þó bjartsýn á að ástandið lagist og það vinnum við saman,“ segir Berglind Harpa.

Þarf að fara yfir skilmála Loftbrúarinnar

En vandræðin snúa ekki bara að Icelandair. Þegar miklar raskanir hafa orðið og fólk einhverra hluta vegna ekki getað nýtt flug sem það hefur keypt með afslætti Loftbrúarinnar hefur afslátturinn ekki skilað sér aftur til flugfarþegans.

„Það gengur ekki að flugleggirnir brenni upp þegar félagið stendur sér ekki. Það er nógu leiðinlegt að flugið standist ekki en það gengur ekki að tapa líka fjármunum. Tilgangurinn með að greiða þetta flug niður er að aðstoða fólkið og því verður að vera hægt að nýta afsláttinn áfram ef ekki verður af fluginu.

Þarna þarf að vinna betur skilmálana með Vegagerðinni og það virðist eiga að vinna með akkúrat þetta,“ segir Berglind Harpa. Í fréttum RÚV í dag sagði sviðsstjóri hjá Vegagerðinni að þetta atriði yrði tekið í næstu endurskoðun Loftbrúarinnar. Endurskoðun væri hins vegar ekki á dagskránni núna þótt ávallt væri unnið að endurbótum á kerfinu.

Alls sátu um 25 manns fundinn, sveitarstjórnarfólk auk fulltrúa frá Austurbrú og atvinnulífinu. Þá kom Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, inn á fundinn en hún hefur verið á ferð um Austurland síðustu daga og fengið að heyra að raunum íbúa með flugið.

„Það er ekki sjálfsagt að fá yfirstjórn Icelandair á fund, hvað þá ráðherra. Við erum mjög ánægð með að hún hafi setið fundinn. Það var mikil þyngd í að hafa hana með okkur því hún lagði áherslu á að trausta samgöngur séu mikilvægar fyrir svæðið. Hennar flokkur er með samgöngumálin og okkur heyrðist að það væri samtal í gangi um málin við bæði Vegagerðina og yfirstjórn flugfélagsins.“
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.