Aukinn þrýstingur kominn á að innanlandsflugið verði skilgreint sem almenningssamgöngur

Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir þrýsting Austfirðinga hafa skilað því að farið sé að ræða af alvöru um að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur. Stuðningur sé úr fleiri áttum.


„Við náðum ákveðinni umræðu af stað stað framundir kosningar sem búið var að leggja grunn að áður, til dæmis með hópum á Facebook.

Þetta er ekki komið í neitt ferli enn en það er komin ný ríkisstjórn og það þarf að halda áfram að ræða þetta. Það þurfa allir að gera en ekki bara við störfum í Austurbrú,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Innanlandsflugið barst í tal við kynningu á verkefninu Áfangastaðurinn Austurland í flugstöðinni á Egilsstöðum á mánudagskvöld.

Sigurbjörg Inga Flosadóttir, hótelstjóri á Eyvindará, vakti athygli á málinu og sagði að stórar ferðaskrifstofur veigruðu sér við að senda fólk austur á land út af kostnaði við innanlandsflug. „Þær segja að þær myndu senda okkur hópa í allan vetur en vitna alltaf í flugið. Ef fólk hefur ekki pening til að komast hingað þá kemur það ekki,“ sagði hún.

En málið snýst ekki bara um ferðaþjónustuna heldur íbúa fjórðungsins sem bæði vilja og þurfa að sækja ýmsa þjónustu suður til Reykjavíkur. Í langtímasamgönguáætlun, sem rædd var á Alþingi í haust, var gert ráð fyrir niðurgreiðslu í innanlandsflug á þeim forsendum að það sé almenningssamgöngur árið 2019.

„Mér finnst þessi umræða um að flugið verið skilgreint sem almenningssamgöngur vera orðin meira áberandi. Við komumst þangað en það tekur tíma og við erum orðin mjög óþolinmóð eftir að eitthvað gerist. Til þess að svo megi verða þurfum við að ná nógu miklum slagkrafti,“ sagði Jóna Árný.

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sagið að Austfirðingar væru ekki einir í baráttunni. Þá væru reglulega skoðaðir möguleikar á samkeppni á flugleiðum.

„Það hefur mikið af kraftmiklu fólki látið í sér heyra, ekki bara að austan heldur fleiri landssvæðum. Það er mikil pressa á Flugfélag Íslands en við höfum líka heyrt í öðrum flugfélögum. Við tökum spjall við Erni á hverju ári.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.