Auglýst eftir nýjum sóknarpresti í Hofsprestakall

Auglýst hefur verið eftir sóknarpresti í Hofsprestakall sem nær yfir Vopnafjörð og Bakkafjörð. Veiðihlunnindi í Hofsá hafa verið undanskilin starfskjörum prestsins.


Biskup skipar í stöðuna til fimm ára frá og með 15. október næstkomandi. Staðan er auglýst eftir að séra Stefán Már Gunnlaugsson var skipaður héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli en Stefán hefur verið sóknarprestur á Vopnafirði frá árinu 2005.

Í auglýsingu segir að jörðin Hof fylgi embættinu, að undanskildum veiðihlunnindum. Kirkjuráð ákvað á síðasta fundi að undanskilja réttindin, að minnsta kosti þar til starfshópur, sem skipaður var eftir kirkjuþing 2015 um eignir og eignastýringu kirkjunnar, skilar niðurstöðum sínum. Hofsá er í hópi bestu laxveiðiáa landsins.

Í auglýsingunni segir að prestinum sé skylt að sitja prestsetrið að Hofi og hafa umsjón með því.

Frestur til mánudags að biðja um kosningar

Umsóknarfrestur er til 23. ágúst og velur þriggja manna matsnefnd hæfustu umsækjendurna. Kjörnefnd prestakallsins kýs úr hópi þeirra hæfustu. Þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna getur óskað skriflega til biskups eftir almennum prestkosningum.

Sú beiðni þarf að berast eigi síðar en hálfum mánuði eftir að embættið er auglýst. Auglýsing birtist á vef Stjórnarráðs Íslands mánudaginn 24. júlí.

Ekki sjálfgefið að eiga í farsælu samstarfi við skóla

Prestakallið samanstendur af Hofssókn með 136 íbúa, Vopnafjarðarsókn með 511 íbúa og Skeggjastaðarsókn með 107 en samþykkt var í vetur að færa síðastnefndu sóknina frá Langanesprestakalli yfir í Hofsprestakall.

Starfinu í prestakallinu lýst þannig að þar séu sóknarbörn sem vinni fórnfúst sjálfboðaliðastarf í þágu kirkjunnar sinnar. Kórstarfið er öflugt undir leiðsögn frábærs organista.

Sérstaklega er minnst á öflugt barna- og unglingastarf sem byggi á farsælu samstarfi prests og leiðtoga síðustu ár. Prestakallið eigi í farsælu og jákvæðu samstarfi við leik- og grunnskóla sem sé ekki sjálfgefið um þessar mundir.

Helstu veikleikar prestakallsins eru taldir vera hægt endurnýjun og hækkandi aldur þeirra sem að safnaðarstarfinu komi. Yngra fólk á svæðinu gefi sér ekki tíma í það þar sem það vinni vaktavinnu mikinn hluta ársins. Bent er á að byggðirnar eigi undir högg að sækja og við blasi „mikilvægt verkefni og tækifæri fyrir kirkjuna að stuðla að jákvæðri byggðaþróun undir merkjum frelsarans frá Nasaret.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.