Átta ára fangelsi og yfir fjórar milljónir í miskabætur fyrir skotárás

Árnmar J. Guðmundsson hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir skotárás á Egilsstöðum í lok ágúst. Hann var sakfelldur af öllum ákæruatriðum. Dómari taldi ljóst að honum hefði átt að vera ljósar afleiðingar af gjörðum sínum.

Dómurinn féll fyrir mánuði en var ekki birtur opinberlega fyrr en í þessari viku. Honum hefur þegar verið áfrýjað til Landsréttar.

Að kvöldi 26. ágúst sinnaðist Árnmari við sambýliskonu sína að heimili þeirra í Fellabæ, sótti skotvopn niður í kjallara og keyrði að heimili hennar fyrrverandi sambýlismanns í Dalseli á Egilsstöðum. Áður en hann fór inn hlóð hann byssurnar. Maðurinn var ekki heima heldur synir þeirra sem flúðu. Árnmar skaut síðan skotum á bifreið í hlaðinu, hleypti síðan af skotum inni í húsinu og loks að lögregluþjónum. Eftir drjúga stund kom hann út og beindi byssu að lögregluþjóni sem skaut Árnmar í jörðina.

Fyrir þetta var Árnmar meðal annars ákærður fyrir brot í nánu sambandi, gegn barnaverndarlögum, fyrir hótanir auk tveggja tilrauna til manndráps, annars vegar gagnvart lögregluþjóni sem hann skaut að, hins vegar gagnvart sambýlismanninum fyrrverandi. Árnmar játaði flesta ákæruliðina en neitaði því að hafa beint byssu að sambýliskonu sinni, hafa miðað byssu á strákana og að hafa ætlað sér að bana öðrum. Hann hafnaði einnig í fyrstu ákæru um að hafa ógnað lögregluþjóninum undir lokin en játaði hana á seinni degi aðalmeðferðar.

Framburður talinn óstöðugur

Út úr dóminum má lesa að frásögn Árnmars þykir ótrúverðug, bæði vegna þess að hann man illa eftir kvöldinu, hins vegar vegna þess að hún stangist á við bæði gögn málsins og frásögn annarra vitna.

Þótt Árnmar muni hvorki eftir að hafa sótt sér skammbyssu, né miðað henni að unnustu sinni, er í dóminum bent á að óumdeilt sé að skammbyssan hafi verið með í för þegar Árnmar var kominn yfir í Egilsstaði. Þá er frásögn hennar fyrir dómi og hjá lögreglu samhljóma símtali hennar til Neyðarlínunnar umrætt kvöld. Ógn hans gegn henni telst því sönnuð.

Árnmar hélt því fram að ásetningur hans hefði verið að hræða húsráðanda í Dalseli ærlega, enda hefði sá breitt út um hann munnmælasögu um að hann hefði ógnað mági sínum með skotvopni. Árnmar hefur sjálfur borið að hann hafi sturlast og vitni hafa lýst sturlunarástandi hans. Nokkuð ljóst virðist að hann hafi ráðist inn í húsið með haglabyssu hlaðna, borið hana við öxl og miðað um stofuna, auk þess að kalla á drengina hvar faðir þeirra væri.

Í dóminum er vitnað til ákvæðis almennra hegningarlaga um að sá sem taki ákvörðun um verknað, svo sem svipta annan lífi, teljist sekur um tilraun þótt brotið sé ekki fullframið. Tilkynning eða hótun sé ekki tilraun, ekki sé hægt að refsa fyrir illar hugsanir einar, þótt hann hafi haft uppi stór orð á leiðinni.

Húsráðandi var nýfarinn út í stutta gönguferð og var því ekki heima. Dómari segir það hafa verið hreina tilviljun því ljóst hafi verið að Árnmar bæri til hans mjög þungað hug. Andlegt ójafnvægi sem og neysla áfengis ofan í lyf fyrr um kvöldið svipti hann ekki ábyrgð gjörða sinna. Sannað sé að Árnmar hafi ráðist inn með hlaðna byssu á lofti og að lýstu hugarástandi hans sé sannað að hann hann hafi í raun ákveðið og ótvírætt sýnt í verki ásetning um að bana húsráðanda, þótt ekki hafi reynt frekar á það.

Að sama skapi telst sannað að þótt Árnmar neiti að hafa beint hlaðinni byssu að drengjunum hafi hann með háttsemi sinni skapað þeim mikla ógn.

Átt að vera hættan ljós

Árnmar skaut þremur haglaskotum að lögregluþjóni í vari bakvið bíl og öryggisskjöld í um 10-12 metra fjarlægð úr dyragættinni. Árnmar hélt því fram að það hefðu verið ósjálfráð viðbrögð eftir að hafa séð glitta í skjöldinn og hafnaði því að hafa ætlað sér að hæfa lögregluna. Þennan framburð telur dómurinn ótrúverðugan enda stangist hann á við bæði framburð annarra vitna og gögn.

Samkvæmt niðurstöðum tæknideildar lögreglu fór eitt skotanna í beinni stefnu ofan við lögregluþjóninn, hin í bílinn sem hann og annar lögregluþjónn skýldu sér við en nokkuð til hliðar við fyrsta skotið. Stefna skotsins sé innan hættusvæðis dreifingu haglanna og Árnmari hafi átt að vera ljóst að líklegast hlyti lífstjón af skotunum. Þótt fyrstu skotum Árnmars og lögreglu hafi verið skotið á sömu millisekúndunni sé reyndin sú að Árnmar hafi þar áður hlaðið og síðan lyft haglabyssunni.

Tæpar 15 milljónir í bætur og málskostnað

Fyrir aðalmeðferðina hafði Árnmar samþykkt skaðabætur fyrir skemmdir. Hann viðurkenndi einnig kröfur húsráðanda í Dalseli og sona hans um miskabætur en taldi þær of háar. Kröfu unnustu sinnar um miskabætur hafnaði hann en krafðist lækkunar til vara.

Sambýlismaðurinn fékk dæmdar 1,5 milljónir í miskabætur, af þeim tveimur sem hann fór fram á auk 900 króna í munatjón. Drengirnir fengu eina milljón hvor af 2,5 sem þeir kröfðust og konan 750 þúsund af 1,5 milljóna kröfu. Þá þarf Árnmar að greiða 10,1 milljón í málskostnað.

Við ákvörðun refsingar er samþykkt hans á bótaskyldu, iðrun og að hann hefur ekki áður verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot talin honum til málsbóta. Engu að síður var hann dæmdur í átta ára fangelsi. Gæsluvarðhald frá í lok ágúst dregst frá því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.