Alvarlegar athugasemdir við ástand leiktækja á lóð Eskifjarðarskóla

Nemendur og aðstandendur grunnskólans á Eskifirði hafa áhyggjur af ástandi leiktækja á lóð skólans. Heilbrigðiseftirlit telur að viðhaldi verði ekki frestað öllu lengur.

Skólaráð og nemendaráð skólans héldu nýverið sameiginlegan fund og sendu að honum loknum frá sér áskorun til bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð um að beita sér fyrir að framkvæmdir á skólalóðinni hefjist strax, áður en þar verði alvarleg slys.

Áskorunin kemur í kjölfar eftirlitsskýrslu Heilbrigðiseftirlits Austurlands þar sem gerðar eru margvíslegar athugasemdir við öryggismál á leiksvæðinu.

Í henni segir að viðhaldi á leiktækjum úti hafi ekki verið sinnt sem skyldi, né farið eftir athugasemdum heilbrigðiseftirlitsins. Ástand leiktækjanna sé það bágborið að viðhaldi verði ekki frestað lengur. Í ljósi „síendurtekinna athugasemda síðastliðin ár“ verði ekki hjá því komist að skrifa kröfubréf á sveitarfélagið og krefjast tímasettrar úrbótaáætlunar.

Talin eru upp tíu atriði sem gerð hafi verið athugasemdir við í fyrra og eigi enn við, meðal annars að kaðlar í bæði kastala og klifurgrind séu það slitnir að sjáist í vír. Ekki sé viðunandi að gera við þá með að nota límband eins og reynt hefur verið. Þá er tekið fram að ástand kaðlanna í kastalanum hafi versnað töluvert frá eftirlitinu í fyrra og séu þeir við að slitna.

Fyrst þarf að hanna

Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs Fjarðabyggðar, segir að í dag sé orðin krafa um að leiksvæði séu fyrst hönnuð áður en leiktæki séu sett upp samkvæmt þeirri hönnun. Nú sé beðið eftir að fá verð í hönnun á lóðinni; þegar það liggi fyrir verði hægt að setja fram tímasetta áætlun en frestur til þess er til 15. mars.

Aðspurður um síendurteknar athugasemdir segir Marinó að alltaf hafi verið brugðist við alvarlegustu athugasemdum sem fram hafi komið í skoðun. Leiktækin yngist ekki og slit verði yfirleitt á sömu stöðum við notkun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.